Spurning hvernig framhaldið verður hjá bílaleigum
25 til 30% afköst í sumar miðað við 2019 segir Ásgeir Elvar Garðarsson hjá Bílaleigunni Geysi. Tvær bílaleigur í þrot. Margar í erfiðleikum
„Sumarið hefur verið öðruvísi en við áttum svo sem ekki von á öðru en samdrætti þegar allt fór í frost, bara spurning hversu miklum. Nú er þetta spurning um framhaldið, haustið, veturinn og ekki síst næsta ár,“ segir Ásgeir Elvar Garðarsson, framkvæmdastjóri Bílaleigunnar Geysis í Reykjanesbæ.
Nýlega var greint frá því að tvær bílaleigur með starfsemi í nágrenni Keflavíkurflugvallar hafi hætt rekstri. Bílaleigan Green Motion, sem var með aðsetur á Vesturgötu í Keflavík, hefur verið tekin til gjaldþrotaskipta og Lagoon Car Rental hefur farið sömu leið. Báðar leigurnar voru nokkuð umsvifamiklar síðustu árin.
Ásgeir Elvar segir að eitt af verkefnunum hjá Geysi á þessu ári hafi verið að minnka bílaflotann í ljósi afleiðinga COVID-19 og hafi það gengið vel. Í fyrrasumar hafi fyrirtækið verið með nærri 1200 bíla en í sumar hafi þeir verið um sjöhundruð. Víkurfréttir hafa heyrt svipaða sögu frá fleiri bílaleigum þar sem þær hafa allar reynt að minnka bílaflotann. Margir nýlegra bílaleigubíla hafa selst í vor og sumar á sama tíma og sala á nýjum bílum hefur dregist mikið saman.
„Í sumar höfum við verið á um 25 til 30% afköstum miðað við í fyrra. Íslendingar hafa verið duglegir að leigja húsbíla og þeir hafa verið nær allir í leigu góðan part sumarsins. Verðið samt helmingi lægri en það var. Útlendingar hafa líka mætt og leigt húsbíla og bílaleigubíla.
Það fer hins vegar enginn með mikinn forða frá sumrinu inn í haustið og veturinn. Það er ljóst að fjöldi ferðamanna verður áfram í lágmarki og mikil óvissa framundan. Geysir á sem betur fer langa og góða sögu á Íslandi og við eigum flottan kúnnahóp á innanlandsmarkaði. Í vetur munum við því hlúa vel að honum og setja frekari fókus á landann hér heima.
Þetta eru skrýtnir tímar en við berjumst áfram.“ sagði Ásgeir Elvar Garðarsson.
Óvanaleg sjón í agústmánuði. Fjöldi bílaleigubíla er ekki í útleigu hjá bílaleigunum.