Sprengt fyrir stálþili í Grindavíkurhöfn
Jörð skalf við Grindavíkurhöfn í gærdag þegar starsmenn verktakafyrirtækisins Hagtaks sprengdu fyrir stálþili sem á að reka niður meðfram Svíragarði.
Um 1.500 kg af dýnamíti í rúmlega 40 hleðslum rauf kyrrðina er verktakarnir létu ríða af. Þrátt fyrir gusuganginn raskaði samt ekki daglegum störfum við bryggjuna þar sem smábátarnir héldu áfram að landa eins og ekkert hefði í skorist.
Skipverjar á Gísla Súrssyni GK komu sér meira að segja fyrir úti á pollinum, rétt um 20-30m frá sprengingunum og fengu gott útsýni yfir herlegheitin.
Framvæmdirnar miða að því að stórbæta aðstöðu við höfnina, en undanfarin misseri hefur verið unnið mikið verk í þeim efnum. Stefnt er að því að höfnin verði komin í gagnið í október nk.
Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra var viðstaddur sprenginguna, en hann var að skoða hafnarmannvirki Grindavíkur í boði hafnarnefndar.
Með honum í för voru Helga Haraldsdóttir, ráðuneytisstjóri, Halldór S. Kristjánsson, aðst.ráðuneytisstjóri, og Gísli Viggósson, forstjóri Siglingamálastofnunar Íslands.
Á móti þeim tóku Margrét Gunnarsdóttir, formaður hafnarnefndar, Ólafur Ö. Ólafsson bæjarstjóri, Hörður Guðbrandsson, forseti bæjarstjórnar, Sigmar Eðvarðsson, formaður bæjarráðs, og Sverrir Vilbergsson, hafnarstjóri.
Eftir herlegheitin leit hópurinn við í Saltfisksetrinu og þáði kaffiveitingar.
VF-myndir/Þorgils