Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Sprengjur sem valda stórtjóni
Fimmtudagur 22. maí 2003 kl. 14:05

Sprengjur sem valda stórtjóni

Í dag fór fram sprengjusýning á Varnarliðssvæðinu við Keflavíkurflugvöll þar sem sprengjudeild Landhelgisgæslunnar sýndi öryggisstarfsmönnum á Keflavíkurflugvelli afleiðingar sprenginga af ýmsum tegundum af sprengjum. Námskeiðið er haldið af Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli og er það ætlað fyrir öryggisstarfsmenn sem starfa á vegum Sýslumannsembættisins á Keflavíkurflugvelli. Arngrímur Guðmundsson yfireftirlitsmaður Öryggissviðs Flugmálastjórnar á Keflavíkurflugvelli hefur byggt upp námskeiðið og útbúið námsefni. Námskeiðið skiptist í bóklegan og verklegan hluta og að sögn Arngríms er farið yfir bóklega hlutann á fjórum dögum. „Í verklega hluta námskeiðsins felst þjálfun öryggisstarfsmanna í sprengjuleit með sérstökum röntgenleitarbúnaði.“ Arngrímur segir að námskeiðið sé byggt upp samkvæmt kröfum Alþjóðaflugmálastjórnarinnar og samtökum flugmálastjórna í Evrópu. „Á námskeiðinu er farið í gegnum alla þætti sem tengjast þeirri vinnu sem öryggisstarfsmenn á flugvöllum sinna. Kröfurnar eru alltaf að verða meiri á þessu sviði og menn þurfa að ljúka ákveðnu prófi og ná lágmarkseinkunn til að geta hafið störf við öryggisstörf á flugvöllum.“ Arngrímur sem hefur lokið námi frá IATA skólanum í bandaríkjunum þar sem hann útskrifaðist með stjórnunargráðu í öryggismálum á alþjóðaflugvöllum segir að Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli hafi séð um þjálfun fyrir Flugmálastjórn Íslands. „Við höfum séð um þjálfun öryggisstarfsmanna á Reykjavíkurflugvelli, Egilsstaðaflugvelli og Akureyrarflugvelli.“
Hluti af námskeiðinu byggist á verklegri kennslu varðandi sprengjur og sprengiefni og sér Sprengjudeild Landhelgisgæslu Íslands um þann þátt námskeiðsins. Sigurður Ásgrímsson sprengjusérfræðingur Landhelgisgæslunnar sér um kennsluna og segir hann að farið sé í gegnum ýmis atriði varðandi sprengjuleit og sprengjuhótanir. „Við förum í gegnum hvað beri að varast við sprengjuleit og skoðum stærð sprengja og sprengikraft. Við sýnum einnig afleiðingar sprenginga algengra sprengja.“

Á meðfylgjandi myndum má sjá sprengingar sem framkvæmdar voru af Sprengjudeild Landhelgisgæslunnar fyrir öryggisstarfsmenn Keflavíkurflugvallar í morgun.

Myndasyrpa af sprengingum á vellinum.


VF-ljósmyndir: Jóhannes Kr. Kristjánsson
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024