Sprengjuhótun á spegli - ásamt mynd af bin Laden

Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar eru um borð í þotunni að leita af sér allan grun. Allir farþegar vélarinnar eru hins vegar komnir í Leifsstöð þar sem þeir þáðu veitingar undir kvöld.
Farþegar vélarinnar verða hér á landi í nótt og verður fundinn gististaður fyrir þá á höfuðborgarsvæðinu.
Jóhann Benediktsson, sýslumaður á Keflavíkurflugvelli, sagði þotuna verða hér á landi í nótt. Leita þurfi í vélinni og rannsaka málið til botns. Hann átti hins vegar ekki von á því að mönnum takist að hafa upp á þeim sem skrifaði hótunina.
Óskar Þórmundsson, yfirlögregluþjónn á Keflavíkurflugvelli, sagði bandarísku alríkislögregluna (FBI) og leyniþjónustu bandaríska hersins hafa verið í sambandi vegna málsins. Ekki sé ljóst á þessari stundu hver fari með rannsókn málsins, þ.e. breskir, íslenskir eða bandarískir aðilar.