Sprenging í versluninni og mikill eldur
Sjónarvottur segist hafa orðið var við mikla sprengingu og síðan hafi þykkur svartur reykur stigið til himins bakvið verslunina Gallery förðun. Útkall barst til Brunavarna Suðurnesja frá Neyðarlínunni rétt fyrir átta í kvöld, á vaktaskiptum slökkviliðsins. Þegar var allt slökkviliðið kallað út, enda strax ljóst að mikill eldur var í húsinu.Sigmundur Eyþórsson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Suðurnesja, sagði í samtali við Víkurfréttir á vettvangi að strax hafi verið lögð áhersla á að verja næstu verslanir við hliðina en tréveggur er á milli Gallery förðunar og næstu verslunar sem er verslunin Börn og Útivist. Einhver reykur var kominn þangað inn og jafnframt í Ljósbogann sem er í sama húsi.
Fjórir reykkafarar voru sendir inn í verslunina en mestur var eldurinn í starfsmannaaðstöðu. Jafnframt var kominn eldur í förðunaraðstöðu inn af starfsmannarýminu og eldur var jafnframt kominn í mátunarklefa. Þá var mikill hiti í versluninni sjálfri og fatnaður á slám farinn að bráðna og brenna.
Sigmundur sagði ljóst að verslunin og húsnæðið væri ónýtt eftir eldsvoðann. Hann sagði ljóst að eldurinn hafi kraumað lengi áður en slökkviliðið kom á staðinn. Lögregla rannsakar nú eldsupptök.
Fjórir reykkafarar voru sendir inn í verslunina en mestur var eldurinn í starfsmannaaðstöðu. Jafnframt var kominn eldur í förðunaraðstöðu inn af starfsmannarýminu og eldur var jafnframt kominn í mátunarklefa. Þá var mikill hiti í versluninni sjálfri og fatnaður á slám farinn að bráðna og brenna.
Sigmundur sagði ljóst að verslunin og húsnæðið væri ónýtt eftir eldsvoðann. Hann sagði ljóst að eldurinn hafi kraumað lengi áður en slökkviliðið kom á staðinn. Lögregla rannsakar nú eldsupptök.