Sprakk á einkavél í lendingu
Það óhapp varð í vikunni að tvö dekk sprungu á einkavél sem var að lenda á Keflavíkurflugvelli. Um er að ræða tveggja hreyfla skrúfuvél með sæti fyrir 76 farþega. Engir farþegar voru um borð heldur einungis tveir flugmenn. Vélar af þessari gerð eru með samtals fimm hjól, nefhjól og svo tvö undir hvorum væng. Reyndist vera sprungið á báðum vænghjólum hægra megin, þannig að flugmennirnir urðu að stöðva vélina við brautarmót á flugvellinum áður en þeir gátu ekið henni í stæði.
Þeir greindu lögreglunni á Suðurnesjum frá því að þeir hefðu verið að koma frá Goose Bay í Kanada og væru að ferja vélina til Finnlands. Við flugtak í Goose Bay hefði verið mikill krapi og bleyta á flugbrautinni, sem augljóslega hefði farið inn í hjólabúnaðinn og frosið þar á leiðinni til Íslands með framangreindum afleiðingum. Slökkvilið mætti á vettvang og flugturni og flugslysanefnd var kynnt málið.