SPKEF styrkir HSS til tækjakaupa
Sparisjóðurinn í Keflavík afhenti í gær Heilbrigðisstofnun Suðurnesja gjafabréf til kaupa á ýmsum tækjum. Gjafabréfið er að upphæð 750.000 kr. til kaupa á sjúklingavagni, skoðunarljósi, kæliskáp og blóðrauðumæli. Tækin nýtast á slysavarðsstofunni og mæta þar brýnni þörf á endurnýjuðum tækjakosti.
Drífa Sigfúsdóttir, framkvæmdastjóri HSS, veitti gjafabréfinu viðtöku og þakkaði þann velvilja sem Sparisjóðurinn hefur sýnt Heilbrigðisstofnuninni í gegnum tíðina. Án stuðnings frá velunnurum stofnunarinnar væri ekki hægt að bjóða upp á þá þjónustu sem nauðsynleg væri í okkar samfélagi. Geirmundur Kristinsson, sparisjóðsstjóri, sagði að það væri innbyggt í stefnu sparisjóðsins að veita hluta hagnaðarins til samfélagsins og með gjöfum til heilbrigðismála þá nýttist stuðningurinn öllum íbúum Suðurnesja með einum eða öðrum hætti.
Efri mynd: Steini Erlings var settur á sjúkrabekkinn til að prófa nýjustu tækin. Í ljós kom að karlinn er alveg stálsleginn.
Neðri mynd: Geirmundur Kristinsson, sparisjóðsstjóri, afhendi bréfið en Drífa Sigfúsdóttir og Konráð Lúðvíksson veittu því viðtöku fyrir hönd HSS.
VF – myndir: Ellert Grétarsson.