Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Spennufall eftir að bréfið barst
Fimmtudagur 21. apríl 2016 kl. 06:00

Spennufall eftir að bréfið barst

Fjöldi íbúa Reykjanesbæjar fylgdist með fundi bæjarstjórnar í gær þar sem til stóð að ákveða hvort óska ætti eftir því við innanríkisráðuneyti að fjárhaldsstjórn tæki við fjármálum bæjarins. Fundurinn fór þó á annan veg því að kröfuhafar óskuðu eftir lengri fresti til viðræðna um niðurfellingu skulda. Bréf þess efnis barst bæjarstjórn aðeins nokkrum mínútum áður en fundurinn átti að hefjast. Að sögn Guðnýjar Birnu Guðmundsdóttur, bæjarfulltrúa Samfylkingar, hafa bæjarstjórnarfundir aldrei verið eins fjölmennir og fundurinn í vikunni, í það minnsta ekki síðan hún tók sæti í bæjarstjórn í byrjun kjörtímabils. „Ég vil þakka bæjarbúum fyrir góða mætingu á fundinn. Það er gaman að sjá þennan mikla áhuga og að fá góð viðbrögð frá bæjarbúum. Það skiptir okkur miklu máli,“ segir hún.

Aðspurð um viðbrögð bæjarfulltrúanna í gær þegar ljóst var að ekki yrði óskað eftir aðkomu innanráðuneytis, þá segir Guðný Birna aðstæður hafa verið skringilegar. „Við höfðum unnið lengi, í marga mánuði, að samkomulagi um niðurfellingu skulda og fengið misjöfn viðbrögð frá kröfuhöfum. Að okkar mati vorum við sokkin í gær og í hálfgerðu áfalli yfir því. Svo kom bréfið rétt fyrir fundinn og við vorum eiginlega í losti. Það varð hálfgert spennufall. Þetta voru ótrúlegar fréttir svo þetta var allt mjög skrítið. Ég viðurkenni það fúslega,“ segir Guðný.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Næsti fundur bæjarstjórnar verður 3. maí næstkomandi og munu viðræður við kröfuhafa standa yfir næstu tvær vikur. Guðný Birna segir Reykjanesbæ vera með gott teymi sérfræðinga á sínum vegum í viðræðunum. „Við viljum vinna þetta vel og lagalega rétt og ekki gera neina vitleysu og leggjum allan okkar metnað í það.“ Guðný kveðst vera hóflega bjartsýn á að samkomulag náist um niðurfellingu skulda á næstu dögum. „Ég vona það besta og ég trúi ekki öðru en að kröfuhafar sjái fjárhagsvandræði Reykjanesbæjar og geri sér grein fyrir því að við þurfum aðstoð þeirra til að ná okkur upp úr þeim 40 milljarða skuldavanda sem við erum í. Ég vona það besta og við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að ná góðri niðurstöðu og ég vona innilega að okkur takist það.“