Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Spennandi tímar framundan hjá Bláa Lóninu
Föstudagur 3. desember 2004 kl. 13:59

Spennandi tímar framundan hjá Bláa Lóninu

Miklir framkvæmdatímar eru hafnir í rekstri Bláa Lónsins þar sem áætlanir um samstarf við bandarísk heilbrigðisyfirvöld og stórbætta aðstöðu við Heilsulindina ber hæst. Þetta var meðal þess sem kom fram í kynningarferð forseta Íslands, Ólafs Ragnars Grímssonar, um Bláa Lónið á mánudag.

Blá Lónið hlaut Útflutningsverðlaun Forseta Íslands fyrr á árinu og hefur forsetinn leitast við að sækja þau fyrirtæki heim sem verðlaunin hljóta.
Starfsfólk Bláa Lónsins kynnti hina ýmsu þætti rekstrarins fyrir forsetanum og má þar nefna þróun og framleiðslu Blue Lagoon húðvara og starfsemi göngudeildar fyrir húðsjúklinga.
Í ferðinni var farið að byggingarsvæði nýju húðlækningarstöðvarinnar, en gert er ráð fyrir að starfsemi geti hafist þar í apríl. Þar verður aðstaða öll hin glæsilegasta til að mæta þörfum jafnt innlendra sem erlendra gesta sem leita í alþekktan lækningarmátt lónsins við húðkvillum.
Eru uppi áætlanir um enn öflugri starfsemi þar sem stefnt er að því að fá bandaríska húðsjúklinga til meðferðar í Bláa Lóninu. Undanfarin ár hefur fyrirtækið verið í viðræðum við bandarísk og íslensk yfirvöld til að vinna að því máli og er vonast til að fyrsti hópurinn komi til landsins næsta haust.

Auk húðlækningarstöðvarinnar eru framkvæmdir hafnar við byggingu framleiðsluhúss fyrir vörur Blue Lagoon Iceland. Grímur Sæmundsen, framkvæmdastjóri Bláa Lónsins, sagði möguleika vörumerkisins ótrúlega góða jafnt á sviði lækninga sem og á sviði Spa-meðferða. „Þannig erum við að bjóða up á heildarlausnir í lækningum og vellíðan. Við höfum sérstöðu á Spa-markaðnum og trúverðugleika í því umhverfi því það er afar sterkt að geta vísað á auðlindina sem Bláa Lónið er."

Þá tíundaði Grímur einnig hugmyndir um að koma upp búðum undir merkjum Blue Lagoon Iceland þar sem vörur þeirra yrðu einungis á boðstólum líkt og tíðkast t.d. hjá Body Shop og öðrum. Þessar áætlanir hafa raunar gengið svo langt að þegar hefur verið sótt um verslunarrými í Leifsstöð, en ekki hefur verið tekin ákvörðun í því máli enn.

Í lok yfirferðarinnar hitti forseti starfsfólk lónsins og hlýddi á stutta tölu um framtíðaráætlanir fyrir Bláa Lónið sem eru glæsilegar svo ekki sé meira sagt. Stefnt er að því að stækka aðstöðuna við Lónið sjálft í allar áttir og er ráðgert að þeim framkvæmdum ljúki árið 2006. Þá hefur Blue Lagoon Iceland uppi áform um byggingu hótels með 200 herbergjum. Er gert ráð fyrir að byggingin muni kosta um 3 milljarða króna í byggingu og muni framkvæmdum ljúka árið 2008.

Bláa Lónið hefur vaxið af miklum móð að undanförnu þar sem að þetta ár er þriðja árið í röð sem skilar hagnaði. Velta ársins í ár er um 840 milljónir króna og virðast möguleikarnir fyrir þetta framsækna fyrirtæki vera miklir.
VF-myndir/Þorgils Jónsson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024