Sparkaði í lögreglubifreið
Karlmaður á þrítugsaldri mátti gista fangageymslur lögreglunnar á Suðurnesjum eftir að hann sparkaði í lögreglubifreið í fyrrinótt. Maðurinn hafði verið færður á lögreglustöð vegna annars máls, en var frjáls ferða sinna þegar þarna var komið sögu. Hann gekk þá rakleiðis að lögreglubifreiðinni sem stóð fyrir utan lögreglustöðina og sparkaði í afturstuðara hennar, þannig að á sá. Maðurinn, sem var mikið ölvaður, var handtekinn og vistaður í klefa meðan hann var að komast aftur til vits.