Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Sparisjóðurinn: Lokaði tímabundið fyrir gjaldeyrisviðskipti
Föstudagur 3. október 2008 kl. 14:12

Sparisjóðurinn: Lokaði tímabundið fyrir gjaldeyrisviðskipti

Lokað var tímabundið fyrir gjaldeyrisviðskipti sjá Sparisjóðnum í Keflavík í morgun. Að sögn Baldurs Guðmundssonar, markaðsstjóra Sparisjóðsins í Keflavík, stóð lokunin yfir í um hálfa klukkustund, en þá var opnað aftur fyrir viðskipti með erlenda gjaldmiðla.

Staðan er sú að útibúin liggja ekki með gjaldeyri í stórum fjárhæðum þar sem aðgengi að erlendum gjaldeyri er skert, eins og ljóst má vera af öllum fréttum. Það kemur hins vegar ekki í veg fyrir „eðlilegar“ úttektir á gjaldeyri. Baldur sagði hins vegar að bankarnir og sparisjóðirnir yrðu að skoða málin sé reynt að taka út milljarða í erlendri mynt.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Mikið álag hefur verið á þjónustufulltrúa Sparisjóðsins frá því á mánudag. Að sögn Baldurs hefur fólk miklar áhyggjur af innistæðum sínum í bönkum og sparisjóðum.  Baldur benti hins vegar á að innistæður fólks væru tryggðar og því þyrfti fólk ekki að hafa áhyggjur. Fólk væri ekkert betur sett með peningana heima undir koddanum frekar en inni á reikningum bankanna. Fjármunirnir væru þó að ávaxta sig í bankanum.

Besta leiðin til að útskýra það ástand sem nú ríkir sé að nota veðurfræði og þær viðvaranir þar sem þar eru notaðar. Þegar er óveður á fólk að halda sig heimavið. Nú er óhætt að segja að það sé óveður og ólgusjór í bankaheimum og þá á fólk að halda sig „heima“ og bíða af sér veðrið og þar til öldurnar lægir. Þannig er ekki ráðlegt að stunda fasteignaviðskipti í ástandinu sem nú ríkir. Seljendur gætu þurft að taka á sig talsverð afföll og kaupendur gætu átt í talsverðum erfiðleikum að fjármagna kaupin.