Sparisjóðurinn í Keflavík að kaupa Nikkelsvæðið
Viðræður standa yfir milli fulltrúa Sparisjóðsins í Keflavík og eigenda Neðra-Nikkelsvæðisins í Njarðvík um kaup Sparisjóðsins á landinu. Geirmundur Kristinsson, sparisjóðsstjóri Sparisjóðsins í Keflavík, segir í samtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins að umrætt svæði hefði lengi verið til sölu og nú væri svo komið að samningur um eigendaskipti væri á borðinu og stefnt væri að því að ganga frá honum að vissum skilyrðum seljenda uppfylltum.
Sverrir Sverrisson ehf. og Elías Georgsson keyptu þetta gamla olíubirgðasvæði varnarliðsins í fyrra og hefur hluti þess verið skipulagður fyrir íbúðarhverfi. Spurður hvers vegna Sparisjóðurinn sé að kaupa þetta svæði segir Geirmundur Kristinsson að svona kaup séu algeng vegna eigna sem þurfi að innleysa í einhvern tíma. Að öðru leyti segist hann ekki geta tjáð sig nánar um málið sem sé á viðkvæmu stigi.
.