Sparisjóðurinn í Keflavík 100 ára í dag
Sparisjóðurinn í Keflavík fagnar í dag 100 ára afmæli sínu en hann var stofnaður þann 7. nóvember 1907. Í tilefni af afmælinu er gestum og gangandi upp á kaffiveitingar í útibúum Sparisjóðsins milli kl. 14 og 16.
Laugardaginn 10. nóvember verða svo haldnir stórglæsilegir tónleikar í Reykjaneshöllinni í boði Sparisjóðsins. Þar koma fram Védís Hervör, Magni, Mugison, Jeff Who, Eivör Pálsdóttir ásamt 9 manna hljómsveit, Léttsveit Tónlistarskólans og Karlakór Keflavíkur ásamt Rúnari Júl. Frí andlitsmálning og hoppukastalar verða í boði fyrir krakkana, auk þess sem Gunni og Felix sprella fyrir þau á milli tónlistaratriða á sviðinu. Boðið verður upp á drykki og poppkorn og krakkarnir geta líka nælt sér í sleikipinna og blöðrur. Herlegheitin hefjast kl. 15:00 og lýkur rúmlega 18:00.
Sparisjóðurinn í Keflavík er með afgreiðslur í Njarðvík, Garði, Grindavík, Sandgerði og Vogum en höfuðstöðvar eru í Keflavík. Um næstu mánaðamót verður síðan opnuð afgreiðsla í Borgartúni í Reykjavík.