Sparisjóðurinn: Fólki ráðið frá því að taka út seðla til geymslu
Sparisjóðurinn í Keflavík heldur úti hefðbundinni starfsemi þrátt fyrir hremmingar vikunnar. Allar afgreiðslur eru opnar svo og heimabanki og hraðbanki. Áhrifa frá útlöndum gætir ekki á rekstur sparisjóðsins eins og á stóru bankana og mun hann áfram sinna þörfum sinna viðskiptavina, segir Baldur Guðmundsson, markaðsstjóri Sparisjóðsins í Keflavík.
Aðspurður um þá staðreynd að fólk streymi í banka og sparisjóði til að taka út innistæður sínar segir Baldur:
„Margítrekað hefur verið að innlán séu trygg og fólki er ráðið frá að taka út seðla til geymslu annars staðar en á reikningum. Í því felst mikið óöryggi, vaxtatap og hugsanlegt eignatap því innstæðutrygging nær ekki til seðlaeignar. Allar innstæður á reikningum Sparisjóðsins falla undir umrætt tryggingarákvæði hvort sem það heitir Peningamarkaðsreikningur eða Framtíðarsjóður. Allt eru þetta reikningar sem njóta fullrar ábyrgðar og örugga vexti“.