Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Sparisjóðirnir gegna mikilvægu hlutverki
Þriðjudagur 24. nóvember 2009 kl. 11:22

Sparisjóðirnir gegna mikilvægu hlutverki

Á aðalfundi Sambands íslenskra sparisjóða, sem haldinn var í Reykjanesbæ 20. nóvember sl. var samþykkt svohljóðandi ályktun:


Aðalfundur Sambands íslenskra sparisjóða harmar þá erfiðleika sem land og þjóð ganga í gegnum eftir hrun meginhluta fjármálakerfisins á Íslandi. Sparisjóðirnir á Íslandi vilja því bæta fyrir sinn þátt í þeim vanda sem nú er að kljást við og heita því að taka þátt í uppbyggingu íslensks samfélags. Þá skorar fundurinn á stjórnvöld að koma með öllum ráðum í veg fyrir að það viðskiptasiðferði sem komst á í kjölfar einkavæðingar bankanna nái fótfestu að nýju.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Þótt margir sparisjóðir séu laskaðir eftir undangengin áföll hafa þeir þrátt fyrir allt flestir enn staðið af sér bankahrunið. Þeir hafa nú samið við innlenda og erlenda lánadrottna sína en þurfa aðeins tímabundna aðkomu ríkisins til að komast í gegnum erfiðleikana. Sparisjóðirnir eru fjármálafyrirtæki sem eiga sér langa og merka sögu og eru til vitnis um að ekki hrundi allt á Íslandi fyrir ári.


Eftir uppstokkun sem óhjákvæmilega er að verða á íslenskum fjármálamarkaði gæti farið svo að sparisjóðirnir verði á meðal fárra fjármálafyrirtækja sem verður stjórnað af íslenskum aðilum. Miklar líkur eru á að viðskiptabankar í eigu erlendra aðila muni leggja áherslu á aðra þætti í rekstri og þjónustu en sparisjóðir munu gera og hafa gert. Því má ætla að sparisjóðirnir á Íslandi gegni mjög mikilvægu hlutverki við að tryggja aðgang landsmanna að hagkvæmri og samkeppnishæfri fjármálaþjónustu.


Sparisjóðir landsins hafa skerpt á hugmyndafræði sinni og lýst vilja til að stokka allt sparisjóðakerfið upp sem leiðandi afl við að byggja upp trausta fjármálaþjónustu. Þar verður gengið út frá því að sparisjóðir verði opin fjöldahreyfing með mikilvægt samfélagslegt hlutverk sem þeir eru tilbúnir að rækja áfram.


Það væri mikið tjón ef fleiri sparisjóðir féllu. Aðeins þarf tímabundna aðkomu frá ríkissjóði til að tryggja framtíð sparisjóðanna. Sá stuðningur er smávægilegur fjárhagslega í samanburði við þau útgjöld sem ríkið hefur þurft að bera vegna endurreisnar bankanna og ljóst að kostnaður ríkisins verður meiri og vandamál samfélaga um land allt aukast ef sparisjóðirnir hverfa.


Landsmenn meta sparisjóði mikils eins og kemur ítrekað fram í þjónustu- og ímyndarkönnunum. Forsvarsmenn sparisjóðanna skora á ríkisstjórn, alþingismenn, sveitastjórnir, fjölmiðla og almenning að standa vörð um sparisjóði landsins.