Spáir því að eldgosið fjari út innan tveggja mánaða
Verulega hefur dregið úr virkni eldgossins í Fagradalsfjalli en það hefur nú verið í gangi í um fjóra mánuði. Gosið hófst föstudaginn 19. mars og hefur vakið mikla eftirtekt og verið aðdráttarafl fjölmargra Íslendinga sem og erlendra ferðamanna.
Nú hyllir undir lok gossins en Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur, sagði í sjónvarpsfréttum RÚV í gær að farið væri að draga úr hraunflæði úr gosstöðvunum á Fagradalsfjalli en gosvirknin hefur verið stopul frá því í lok júní og gígurinn jafnvel legið í dvala dögum saman.
„Af hverju er þetta?,“ spyr Magnús Tumi. „Þetta bendir til þess að framboðið, þ.e. magnið niðri, það sé minna að hafa og þess vegna verður þetta óstöðugt. Það getur leitt til þess að gosrásin taki að þrengjast en þetta getur tekið langan tíma.“ Magnús Tumi segir hvorki skjálftavirkni né annað bendi til að gosið vilji brjótast upp á öðrum stað þannig að nú sé að draga úr gosinu og það muni að öllum líkindum fjara út á næstu einum til tveimur mánuðum. „En það er enga ábyrgð hægt að taka á svona,“ bætir hann við. „Þetta er bara áframreikningur á þeim tölum sem við höfum núna síðast og þetta getur breyst.“