Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fimmtudagur 16. ágúst 2001 kl. 10:49

Sóttu slasaðan sjómann í línubát

Björgunarsveitinni Þorbirni í Grindavík barst í gærkvöldi beiðni um að sækja sjómann út í 60 tonna línubát frá Grindavík sem var að veiðum um 100 sjómílur vestur af Reykjanesi. Hafði sjómaðurinn fengið öngul í hendina. Björgunarsveitin hélt á móti bátnum á björgunarskipinu Oddi V. Gíslasyni og kom að honum rúmlega 2 í nótt eftir 57 sjómílna siglingu frá Grindavík.
Samkvæmt upplýsingum frá Þorbirni gekk vel að ferja sjómanninn slasaða milli skipa þrátt fyrir mikla öldu en norðan kaldi var á staðnum. Komið var með manninn í land í Grindavík um klukkan 7 í morgun.
Fiskibáturinn var við línuveiðar og kræktist öngull í hendi mannsins þegar verið var að leggja línuna. Maðurinn er ekki alvarlega slasaður. Mbl.is greindi frá.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024