Sóttu slasaða konu í Seltún
Kona á sjötugsaldri hrasaði í brekku við Seltún í gær og hlaut opið beinbrot. Björgunarsveitin Þorbjörn í Grindavík, lögregla og sjúkraflutningafólk fóru á vettvang og sóttu konuna og komu undir læknishendur.
Sagt er frá útkallinu á Facebook-síðu björgunarsveitarinnar Þorbjarnar. Þar kemur fram að sérstakar hjólbörur sveitarinnar hafi komið sér afar vel en þær eru hannaðar til þess að auðvelda burð á sjúkrabörum. Þar segir jafnframt að lítið mál hafi verið að bera konuna 250 metra í sjúkrabílinn fyrir alla sem að komu enda hafi samstarf björgunaraðila í gegnum tíðina verið gott.