Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Sorp tekið á Suðurnesjum á 10 daga fresti
Fimmtudagur 5. febrúar 2004 kl. 22:38

Sorp tekið á Suðurnesjum á 10 daga fresti

Sorphirða frá heimilum á Suðurnesjum breyttist sl. mánudag  úr 7 daga kerfi yfir í 10 daga kerfi.  Ástæður fyrir þessum breytingum eru tvenns konar, segir á vef Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum:
Fjármunir sparast við að fara úr 7 daga kerfi í 10 daga kerfi.  Í nýliðnu sorphirðuútboði lækkaði sorphirðukostnaður sveitarfélaganna úr 42 milljónum niður í 32 milljónir ár hvert.
Þá segir að lengri tími á milli sorphirðu kalli á meiri flokkun frá heimilum en allt of mikið af dagblöðum, pappa-og pizzakössum fer í tunnuna sem tekur of mikið pláss.  Athygli skal vakin á því að almenningur getur skilað þessum úrgangi á gámastöðvar S.S. við Kölku, í Grindavík og Vogum endurgjaldslaust.


Engin sorphirða í Grindavík í þessari viku.
Breytingar á sorphirðu á Suðurnesjum eru ekki að fara vel í alla íbúa svæðisins. Það merkir starfsmaður Njarðtaks sem tekur við símtölum frá íbúum svæðisins. Sorphirðudagatali fyrir Suðurnesin hefur verið dreift til allra íbúa. Á dagatalinu er gefið upp símanúmer þar sem fólk getur komið með ábendingar og athugasemdir. Þannig var sorp tekið í Grindavík í síðustu viku og verður síðan tekið aftur að tíu dögum liðnum frá því ruslabíllinn var þar síðast á ferð. Í þessari viku hafa m.a. borist hringingar úr Grindavík þar sem fólk segist vera komið með fulla ruslatunnu og hafi áhyggjur af því hvað gera skuli við allt það sorp sem safnast til fram í næstu viku, þegar ruslið verður tekið. Starfsmenn Njarðtaks reyna að liðsinna fólki eftir bestu getu. Menn séu enn að læra á nýtt kerfi. Íbúarnir fá þó eingöngu þrjár heimsóknir frá ruslakörlunum á mánuði nú í stað þess að ruslið sé tekið vikulega.
Sorphirðudagatalið er þannig byggt upp að einstökum sveitarfélögum eða hverfum sveitarfélags (Reykjanesbær) er gefin mismunandi litur.  Þessi litur gefur til kynna hvenær sorp er hirt í viðkomandi sveitarfélagi. T.d. er liturinn fyrir Grindavík og nágrenni rauður og er þá sorp hirt frá Grindavík á þeim dögum sem litaðir eru rauðir. Þeir sem hringt hafa í upplýsingasímann hafa meðal annars verið að velta fyrir sér þeirri staðreynd að þrátt fyrir að nú sé sagt að sorp sé tekið á tíu daga fresti þá eru möguleikarnir sex í hverjum mánuði hvenær ruslabíllinn er á ferð í þínu hverfi. Annan daginn er litaða kúlan á dagatalinu heil en næsta dag hálf. Það er vegna þess að sorphirðumenn hafa einn og hálfan dag til að hreinsa viðkomandi hverfi. Það eru því ekki að fullu ljóst fyrir þá sem ætla að koma aukasorpi út að tunnu hvenær ruslabíllinn er í raun á ferðinni. Það eina sem er ljóst er það að sorphirða byrjar nú kl. 07 á morgnanna en ekki um hánótt eins og áður. Fólk þarf því ekki að vakna upp um nætur til að vakta ruslatunnuna, ef koma þarf út aukapoka eða kassa.
Athygli skal vakin á því að almenningur getur skilað úrgangi á gámastöðvar S.S. við Kölku, í Grindavík og Vogum endurgjaldslaust.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024