„Sorgmæddur yfir þessum málalokum“ - segir skólastjóri Gerðaskóla
„Ég er mjög sorgmæddur yfir þessum málalokum, en ég er glaður og óendanlega þakklátur að sjá þvílíkan stuðning ég fékk frá starfsmönnum, nemendum og foreldrum, það er bara frábært. Ég hef fengið gífurleg viðbrögð nú í morgun frá foreldrum í Garðinum, sem er ákaflega ánægjulegt og þeir virðast kunna að meta mín störf og ég er mjög þakklátur fyrir það,“ sagði Pétur Brynjarsson skólastjóri Gerðaskóla í samtali við Víkurfréttir nú í morgun en í gærkvöldi voru starfslok Péturs samþykkt á fundi bæjarstjórnar í Garðinum.
Pétur sagði starfslokasamninginn ekki vera í höfn er það væri munnlegt samkomulag fyrir hendi og væntanlega væri gengið frá málum á næstu dögum.
Óskaðir þú eftir þeim samningi? „Já, ég óskaði eftir því að hafa áhrif á mín starfslok. Þegar ég sá að það var komið á dagskrá bæjarstjórnar að gengið yrði frá starfslokum skólastjóra þá óskaði ég eftir því að hafa áhrif á þau starfslok sjálfur,“ sagði Pétur og aðspurður um hvort hann teldi að sér hefði verið bolað í burtu þá sagði hann: „Ég óskaði ekki eftir því að láta af störfum en valdi þann kost að hafa sem mest áhrif á þau málalok og ég gæti með því að gera starfslokasamning.“
Pétur sagðist ekki hafa hugsað sér að mæta á umræddan bæjarstjórnarfund, það hefði lítið upp á sig að hans mati. Hann sagði að hann hygðist áfram sinna sínum starfskyldum fram að áramótum, þegar starfslokin taki gildi.