Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Þriðjudagur 23. september 2003 kl. 11:44

Sonurinn stunginn í Svíþjóð og dóttirin varð fyrir líkamsárás í Keflavík

Mikið hefur gengið á síðustu daga hjá fjölskyldu Guðna Þorbergs Theódórssonar, sem varð fyrir hrottalegri líkamsárás í Karlstadt í Svíþjóð á föstudagskvöld. Guðni var meðal annars stunginn og barinn. Hann var fluttur á sjúkrahús með tvö stungusár á baki og skurð á hálsi. Hann var einnig stunginn rétt undir auga. Guðni var einnig nef- og kjálkabrotinn. Móðir og systir Guðna búa í Reykjanesbæ og systir hans fékk að kenna á því sólarhring á undan bróður sínum. Hún varð fyrir líkamsárás tveggja manna sem óku silfurlituðum VW Polo. Atburðurinn hefur verið kærður og fer skýrslutaka fram í dag.

Að sögn Jórunnar Kjartansdóttur, móður stúlkunnar, var hún að bíða eftir vinkonu sinni sem var á fundi í húsi við Hafnargötuna þegar hún heyrði hljóð frá sjóþotu. Hún fór því á bakvið húsin við Hafnargötuna til að sjá til sjóþotunnar. Eftir bakkanum á bakvið götuna ók silfurgrár VW Polo. Skyndilega var bíllinn stöðvaður og út úr honum spruttu tveir ungir menn og börðu stúlkuna sundur og saman, eins og móðir hennar orðaði það. Inni í bílnum sátu tvær stúlkur og fylgdust með. Stúlkan komst síðan undan mönnunum og í felur. Henni tókst að hringja í vinkonu sína og þær fóru saman á lögreglustöðina í Keflavík. Þaðan fór stúlkan á sjúkrahúsið í Keflavík þar sem hún var mynduð en hún var bæði með áverka á baki og hönd. Hún reyndist óbrotin en er bólgin.

Af bróðurnum í Svíþjóð er það að frétta að bati hans er kraftaverki líkastur og hann fær að fara heim af sjúkrahúsi í dag og er væntanlegur til landsins um helgina.

Fyrir flesta væru þessi áföll nóg að leggja á eina fjölskylduna. Hins vegar gerðist það að tengdadóttir Jórunnar lenti í raunum vestur á fjörðum um helgina með ömmubörnin tvö. Hún var að koma úr beitningarskúr frá syni Jórunnar þegar fiskvinnsluborð tókst á loft í rokinu. Tengdadóttirin var með eitt barn í vagni og annað sem hélt í vagninn. Þegar hún sá hvað var að gerast lagðist hún yfir vagninn. Borðið skall á henni, reif úlpuna hennar og að sögn er hún lurkum lamin eftir atburðinn. Hún bjargaði börnunum frá fjörtjóni og barnavagninn er allur skakkur og skældur.

Ég veit ekki hvað á til bragðs að taka. Ég vil helst fá alla fjölskylduna til mín og pakka henni inn í bómull. Ég held að það sé ekki hægt að leggja meira á eina fjölskyldu, sagði Jórunn Kjartansdóttir í samtali við Víkurfréttir.

Hún mætir með dóttur sinni til skýrslutöku hjá lögreglunni í Keflavík í dag. Hún sagði dótturina sterka þrátt fyrir árásina, enda hafi hugur allra verið hjá Guðna í Svíþjóð og þeim raunum sem hann lenti í.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024