Söngvari Iron Maiden í sjóstangaveiði frá Keflavík
Bruce Dickinson, söngvari hinnar heimsþekktu bresku rokksveitar Iron Maiden og jafnframt flugmaður fyrir Iceland Express, naut lífsins í Keflavík í gær og í dag. Hann kom hingað með blaðamanni og ljósmyndara frá Sea Angler, sem er stærsta sjóstangveiðitímarit Bretlands, til að kynnast því sem býðst í sjóstangveiði hér á landi, einkum þó með Reykjanesið í huga. Ákveðið hefur verið að veiðiferðin prýði forsíðu Sea Angler. Víkurfréttir hittu söngvarann og flugstjórann í Grófinni í dag þar sem hann var að koma úr veiðiferð með Hvalbaki. Hann skemmti sér vel að sögn og veiðin var góð. Þetta er fallegur þorskur sem nú verður settur í frost og tekinn með til Bretlands.
Þar sem ekki gaf á sjó í gær vegna norðaustanstrekkings, skruppu Bruce og ferðafélagar hans í go-kart hjá Reis-bílum í Njarðvík. Bruce keppti í go-kart þegar hann var unglingur og sýndi strax snilldartakta þegar hann spændi af stað. Ungur piltur hafði lagt upp rétt á undan Bruce og lentu þeir í hörku kappakstri. Strákurinn hleypti Bruce ekki framúr og naut þess að vera léttari en söngvarinn, þannig að hann hélt alltaf forskotinu. Svo var að sjálfsögðu farið í Bláa lónið og mikil ánægja með það, eins og gefur að skilja. Síðar um daginn var farið í jeppaferð, en í morgun var lagt upp með Garðari Magnússyni á Hvalbak til að veiða þorsk.
Ein helsta ástæða Bruce fyrir að koma hingað er að taka þátt í því að kynna þá möguleika sem bjóðast ferðamönnum að komast til Íslands á lágum fargjöldum með Iceland Express. Þar sem hann er flugmaður fyrir félagið, þá hefur hann verið mjög liðlegur að hjálpa fyrirtækinu við að kynna það.
Og svo er kannski rúsínan í pylsuendanum, nýjasta plata Iron Maiden, Dance of Death, er í 2. sæti yfir söluhæstu plöturnar í Bretlandi í síðustu viku og í 1. sæti í Svíþjóð.