Söng fyrir læknana á gjörgæslunni
- Hetjuleg barátta 15 mánaða stúlku frá Keflavík sem hlaut alvarleg brunasár.
Fyrir um mánuði síðan brenndist Aðalheiður Lára, 15 mánaða stúlka í Keflavík illa þegar hún settist í rúmlega 80 gráðu heitt vatn á heimili sínu. Helmingur líkama Aðalheiðar brenndist þriðja stigs bruna - bruna sem er lífshættulegur. Brunasár eru með alvarlegustu áverkum sem fólk getur fengið og afleiðingarnar geta verið mjög afdrifaríkar. Aðalheiður eða Allý eins og hún er jafnan kölluð liggur á sjúkrahúsi í Kaupmanna-höfn. Hún er enn í lífshættu og á síðustu tveimur vikum hefur hún gengist undir tvær húðágræðsluaðgerðir. Þrátt fyrir mikil veikindi og miklar kvalir er stutt í brosið hjá þessari litlu stelpu. Hún hefur komið öllum á óvart á sjúkrahúsinu og meðal annars hefur hún sungið fyrir læknana - þeim til mikillar gleði. Katrín Sveinbjörnsdóttir móðir Allýjar vill í viðtali við Víkurfréttir segja frá þessari hrikalegu lífsreynslu fjölskyldunnar og kveða niður kjaftasögur um slysið. Katrín vildi ekki að ljósmynd af sér birtist með viðtalinu.
Katrín og Jósef eiginmaður hennar sátu og horfðu á sjónvarpið á meðan börnin voru uppi í herbergi. Þar voru þriggja ára sonur þeirra, níu ára dóttir Jósefs og Allý. Jósef var nýbúinn að líta inn í herbergi til þeirra og athuga hvort ekki væri allt í lagi. „Maður fylltist einhvern veginn fölsku öryggi vegna þess að elsta stelpan var uppi og maður hugsaði með sér að hún hljóti að kalla á okkur ef eitthvað gerist eða þau fari að rífast,” segir Katrín en hjónin voru að hugsa um að fara á Sandgerðisdaga en ákváðu á síðustu stundu að vera heima.
Fór strax undir kalda sturtu
„Við heyrðum í krökkunum uppi vera að leika sér en allt í einu heyrðist öskur í elstu stelpunni og Allý rétt í sama augnabliki,” segir Katrín. Jósef hljóp strax upp á baðherbergið og þar tók hann Allý úr vaskinum þar sem hún stóð í 80 gráðu heitu vatninu. „Þegar ég kom upp var hann búinn að koma Allý undir kalda sturtuna og sprautaði yfir hana köldu vatni. Ég fór strax í símann og hringdi á sjúkrabíl,” segir Katrín og það tekur á hana að rifja þetta atvik upp. „Hún getur ekki hafa verið lengi ofan í vatninu því maðurinn minn hljóp upp um leið og við heyrðum í henni. Hann tók hana upp úr vatninu, kældi hana strax og ég hringdi um leið á sjúkrabíl,” segir hún og gagnrýnir að rúmlega 80 gráðu heitt vatn skuli koma úr krönunum.
Enginn veit nákvæmlega hvað gerðist
Katrín segir að lítið sé vitað hvað gerst hafi inn á baðherberginu og lýsingar barnanna séu allar fremur óljósar. Áfallið var mikið sem börnin urðu fyrir og þetta hefur verið erfitt fyrir þau. „Stelpan getur engan veginn sagt hvernig þetta gerðist því hún hefur verið í svo miklu sjokki. Sonur minn 3 ára getur ósköp lítið sagt þannig að það veit í raun enginn nákvæmlega hvað gerðist,” segir Katrín og bætir við. „Það er allavega ljóst að heitt vatnið rann í vaskinn og Allý hefur að öllum líkindum farið upp á klósettið, þaðan upp á vaskaborðið og sest ofan í vatnið. Hún getur ekki hafa dottið því þá hefði vatnið skvest yfir hana. Hún hefur að öllum líkindum farið sjálf ofan í vatnið þegar hún sá það því henni finnst mjög gaman að fara í bað. Þetta er samt allt byggt á ágiskunum.”
Örstuttur tími
Katrín segir að sá tími sem Allý hafi setið í vatninu hafi verið nokkur augnablik. „Ef hún hefði verið í margar sekúndur ofan í vaskinum þá væri hún ekki lifandi í dag. Hún stóð ofan í vatninu þegar maðurinn minn kom upp og tærnar eru verst farnar á henni,” segir Katrín en um tíma leit út fyrir að Allý myndi missa nokkrar tær.
Þriðja stigs bruni á helmingi líkamans
Allý var flutt á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og þaðan beint á gjörgæsludeild Landspítalans. Slysið varð á laugardegi og þurfti að bíða fram á mánudag til að sjá hve Allý væri illa brunnin. Á mánudeginum var tekin ákvörðun um að senda hana á sérstaka brunadeild Ríkisspítala Danmerkur í Kaupmannahöfn. „Þegar við komum út kom í ljós að brunasárin náðu yfir 50% líkamans og nær allur bruninn var þriðja stigs,” segir Katrín en þriðja stigs bruni er lífshættulegur.
Á stofu í um 35 stiga hita
Þegar Allý var komin til Kaupmannahafnar var hún sett beint á sérstaka stofu sem er sótthreinsuð. „Þar var hún höfð nakin og óvafin með sárin opin. Hitinn á stofunni var um 35 gráður því það var verið að þurrka upp brunasárin, en einnig var verið að passa að líkaminn hennar væri ekki að hita upp húðina. Hún er bundin bæði á höndum og fótum svo hún geti ekki skaðað sig með því að klóra sér,” segir Katrín en foreldrarnir verða að klæðast sérstökum fötum til að vera hjá henni á stofunni. „Þeir biðu í 14 daga til að sjá hvað mikið af hennar eigin húð myndi gróa. Það kom í ljós að það greri mjög lítið enda eru sárin mjög djúp allsstaðar.”
Í fjóra og hálfan tíma í aðgerð
Fyrsta aðgerðin sem Allý fór í var mánudaginn 13. september. Sú aðgerð tók fjóra og hálfan tíma. Í aðgerðinni var tekin húð af heilbrigðum hluta líkama Allýjar og grætt á brunasárin. Hendurnar, handarbökin og andlitið voru einu staðirnir sem húð var ekki tekin af. Í aðgerðinni missti Allý um 700 ml af blóði sem þykir ekki mikið. Læknarnir voru ánægðir með árangurinn. „Eftir aðgerðina fór hún á gjörgæsludeild og vaknaði þar samdægurs. Hún var tekin úr öndunarvélinni um kvöldið. Tveimur dögum eftir aðgerðina hækkaði hitinn. Hún átti erfitt með andardrátt og læknarnir héldu að hún væri komin með lungnabólgu. „Til allrar hamingju var hún ekki með lungnabólgu,” segir Katrín og brosir.
Syngur af og til
Þó Allý sé ekki nema 15 mánaða gömul hefur hún staðið sig vel. Læknarnir á danska sjúkrahúsinu segja hana mjög heilbrigða og að það komi þeim á óvart hve hress hún sé þrátt fyrir þessi erfiðu veikindi. „Hún syngur af og til fyrir okkur og læknanna og það kemur þeim á óvart. Hún grætur náttúrulega líka, fær krampa um allan líkamann og þolir matinn illa. Það er ýmislegt sem hefur komið uppá og það er ýmislegt sem getur komið uppá. Hún er í lífshættu og mikið slösuð,” segir Katrín og lítur á mynd af litlu hetjunni sinni. „Hún er algjör hetja þessi stelpa.”
Fáar hjúkrunarkonur séð verri bruna hjá barni
Læknarnir á danska sjúkrahúsinu voru mjög áhyggjufullir vegna brunans. Katrín segir að fáar hjúkrunarkonur á sjúkrahúsinu hafi séð börn sem voru verr brunnin en Allý. „Þeir voru jafnvel hissa á því að hún væri lifandi. Ég spurði lækninn hvort hún væri í mikill hættu og hann sagði við mig að hann gæti ekki lýst hana úr lífshættu - það væri bara ekki hægt. Hann sagði hinsvegar við mig að þessi stelpa ætti eftir að ná sér því hún væri svo ofboðslega sterk. Guð hvað ég var glöð þegar hann sagði þetta,” segir Katrín og brosir.
Greru fyrr en gert var ráð fyrir
Rúmur hálfur mánuður er síðan Allý fór í fyrstu aðgerðina á danska sjúkrahúsinu. Læknarnir voru mjög ánægðir með árangur þeirrar aðgerðar. „Sárin á Allý eftir aðgerðina voru mun fljótari að gróa en læknarnir gerðu ráð fyrir. Meira að segja ein af tásunum hennar hefur gróið af sjálfsdáðum,” segir Katrín og það er mikill sigur því um tíma leit út fyrir að hún myndi missa nokkrar tær.
Þurfti taka aðeins framan af einni tá
Á mánudaginn fór Allý í aðra aðgerð þar sem húð var aftur tekin af líkama hennar og grædd á aftari hluta líkamans. Sú aðgerð gekk vel og þurfti hún ekki að fara á gjörgæsludeild eftir þá aðgerð. Í aðgerðinni kom í ljós að það tekst að bjarga níu og hálfri tá. Sýkingarhættan er mikil eftir aðgerðina og verður Allý í sótthreinsuðu herbergi á meðan sárin gróa. „Við skiptumst á að vera hjá henni. Fyrst vorum við hjá henni 24 tíma á sólarhring og það var gríðarlegt álag. Nú sitjum við hjá henni frá 8 á morgnana til 11 á kvöldin. Á nóttunni eru læknanemar hjá henni,” segir Katrín.
Slysin gera ekki boð á undan sér
Þegar Katrín er spurð hvort þau kenni sér um slysið segir að hún að þau hafi ásakað sig í byrjun. „Það hjálpar manni ekkert að vera að naga sig í handarbökin. Ég veit með vissu að þetta var bara hræðilegt slys. Hjúkrunarfólkið og fólkið sem hefur annast Allý hafa sagt okkur það. Þetta gerist á nokkrum sekúndum. Þetta er bara eitthvað sem gerir ekki boð á undan sér og þetta er bara alveg hrikalegt slys,” segir Katrín og bætir við. „Það er samt svo hræðilegt sem gerðist og auðvitað líður manni hrikalega illa. Það skiptir samt engu máli því það eina sem við hugsum um er að hetjan okkar nái sér.”
Kjaftasögurnar gengið víða
Miklar kjaftasögur hafa gengið um Suðurnes og víðar um tildrög slyssins og eru útgáfurnar margar. Katrín telur að kjaftasögurnar verði til hjá fólkinu sem þykist vita allt best. „Við þetta fólk vil ég segja að ef því líður betur að vera með þessar sögur í gangi þá er það þeirra mál. Það er bara ágætt ef fólk er svona fullkomið,” segir Katrín og er ákveðin á svip.
Næstu 12 mánuði í vafningum
„Við tökum bara einn dag í einu. Ég þori ekki að hugsa langt fram í tímann. Okkur var sagt í byrjun að fyrstu dagarnir plötuðu oft og svo yrði þetta verra. Við venjuleg veikindi veikist maður og batnar í kjölfarið. Í tilfellum sem þessum getur ástandið versnað mikið þó það hafi verið gott rétt á undan þannig að við tökum bara einn dag í einu,” segir Katrín en næstu 12 mánuði þarf Allý að vera í vafningum og hún getur líklega ekki verði í venjulegum fötum. Húðin á neðri hluta líkama Allýjar verður aldrei eðlileg. „Hún þarf alltaf að bera á sig sólarvörn áður en hún fer út í sólina og hún þarf reglulega að bera á sig olíur. Þetta er ekkert eðlileg húð. Til dæmis ef hún færi út í sólarljós þá verður húðin fjólublá.”
Þakka fyrir bænirnar
Katrín og Jósef hafa fundið fyrir miklum stuðningi frá Íslandi í veikindum Allýjar. Vinir og vandamenn hafa staðið þétt við bakið á þeim og allir tekið höndum saman. Katrín segir að bænir fólks hafi skipt miklu máli „Fyrirbænir fólks hafa skipt gríðarlegu máli og þá skiptir ekki hverrar trúar fólk er að mínu mati. Það er fullt af fólki sem hefur sent henni allskyns bænir og ég veit að það hefur hjálpað mikið. Við viljum þakka þessu fólki fyrir allan stuðninginn - bænir þeirra og hlýjan hug.”
Barátta Allýjar er bara rétt að byrja. Foreldrar hennar og aðrir vandamenn standa þétt við hlið hennar eins og þau hafa gert frá upphafi. „Við munum gera allt fyrir þessa litlu hetju svo hún geti átt sem eðlilegast líf í framtíðinni. Ekkert annað skiptir máli.”
Hægt er að sjá viðtalið í Víkurfréttum hér.
Aðstandendur og vinir fjölskyldu Aðalheiðar Láru hafa opnað styrktarreikning. Númerið er: 0142-05-000300 - kt: 040603-3790.
Myndir: Úr einkasafni.
© Katrín Sveinbjörnsdóttir. Afritun myndanna eða eftirprentun er með öllu óheimil.
Viðtal: Jóhannes Kr. Kristjánsson • [email protected]