Söluferli Kölku runnið út í sandinn
Fyrirhugð sala á Kölku til fyrirtækisins Waste Energy Management virðist hafa runnið út í sandinn. Stjórn Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja (SS) gaf fyrirtækinu frest fram til síðasta föstudags til að greiða umsamda kaupupphæð ella myndi SS nýta sér ákvæði í samningi og vísa málinu frá. Eftir því sem VF kemst næst mun greiðsla ekki hafa borist á föstudaginn. Ekki náðist í stjórnarformann SS í morgun til að fá þetta staðfest.
Tvö kauptilboð bárust í sorpeyðingarstöðina Kölku fyrr á þessu ári og ákvað stjórn hennar í mars síðastliðnum að ganga til viðræðna við fyrirtækið Waste Energy Management ehf sem átti hærra tilboðið. Hitt tilboðið var frá Njarðtak. Upphæðir tilboðanna fengust ekki uppgefnar en samkvæmt áreiðanlegum heimildum VF hljóðaði hærra tilboðið upp á 1,3 milljarða en það lægra upp á 500 milljónir króna.
Ákveðið var síðastliðið haust að setja Kölku í söluferli en þá hafði Reykjanesbær samþykkt að segja sig úr rekstrarfélagi sveitarfélaganna um stöðina. Málefni Kölku höfðu um tíma verið bitbein milli sveitarfélaganna en bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ lögðu þunga áherslu á að rekstrarformi hennar yrði breytt.
Sigmar Eðvarsson, fráfarandi stjórnarformaður SSS, vék að málefnum Kölku í ræðu sinni á aðalfundi sambandsins um helgina. Beindi hann þeim tilmælum til sveitarstjórnafólks á Suðurnesjum að hætta nú þegar við öll söluáform varðandi Kölku og samþykkja þess í stað hluthafasamkomulag sem lá fyrir í júní 2008 svo koma mætti rekstrarformi Kölku í viðunandi horf þannig að allir eigendur gætu vel við unað.