Sólbrúnir krakkar mæta til skóla eftir frábært sumar
Það voru mörg sólbrún andlit sem sáust við skólasetningar í skólum í morgun eftir sólríkt og skemmtilegt sumar. Eitt það besta veðurfarslega séð í langan tíma. Það er nú langt komið og skólasetning gefur tóninn um að haustið sé á næsta leyti.
Gunnar Jónsson, skólastjóri Heiðarskóla í Keflavík sagði í morgun að í fyrsta sinn væru nánast engar breytingar á starfsliði skólans en þar starfa 55 manns. Ekki er langt síðan að mikið var um leiðbeinendur í kennarastörfum en nú er öldin önnur og ásókn í kennarastarf er mikil.
Heiðarskóli er ungur skóli og við einsetningu skóla í Reykjanesbæ fyrir um áratug var skólum skipt í hverfi. Nú í fyrsta sinn fækkar nemendum á milli ára í Heiðarskóla. Það er sennilega dæmi um að hverfið sé að þroskast og eldast.
Margir foreldrar voru með börnum sínum við skólasetningu í morgun. Það er eflaust líka dæmi um breytta tíma. Hér á árum áður var mun minna um það að mamma eða pabbi færu með börnum sínum við skólasetningu.
Meðfylgjandi myndir voru teknar í Heiðarskóla í morgun.