Sólarvéið í Grindavík stórskemmt
í annað sinn á skömmum tíma.
Nýverið fóru einhverjir óprúttnir aðilar um í skjóli nætur og unnu umtalsverðar skemmdir á Sólarvéinu. Viðgerðarkostnaður mun vafalaust hlaupa á hundruðum þúsunda, ef að þakhleðslan gefur sig ekki áður en hægt verður að fá menn í verkið. Þetta er í annað skiptið á stuttum tíma sem Grindavíkurbær þarf að leggja í mikinn kostnað vegna skemmda á Sólarvéinu. Greint er frá þessu á vef Grindavíkurbæjar.
Í ár eru 20 ár frá vígslu Sólarvésins. Höfundur verksins, Tryggvi Hansen, er heiðinn maður og er gott að hafa hin fornu trúarbrögð í huga þegar Sólarvéið er skoðað. Hringlaga formin gefa í skyn samfélagsmyndina. Þau eiga rætur sínar að rekja til bronsaldar, tíma frjósemi og lífsgleði, þegar sólin og jarðgyðjan voru dýrkaðar. Hringurinn með eldinn og vatnið innan sinna vébanda er tákn frumþorpsins. Í gegnum mitt Sólarvéið liggur gjá en hún er í farvegi annarrar gjár og er hluti sprungukerfis sem liggur í gegnum Grindavík endilanga, allt Reykjanesið, landið og landgrunnið, en Ísland er á mótum tveggja fleka milli heimsálfanna Evrópu og Ameríku.