Sólarhringsvakt það eina rétta
„Ef það væri sólarhringsvakt á skurðstofu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja þá myndi það minnka álagið í bráðatilfellum sjúkraflutninga. Hið eina rétta í stöðunni til að tryggja öryggi heimamanna er að koma á sólarhringsvöktum og fullnægjandi bráðaþjónustu á stofnuninni," segir Sigmundur Eyþórsson slökkviliðsstjóri Brunavarna Suðurnesja í samtali við Víkurfréttir.
Að sögn Sigmundar voru sjúkraflutningar á vegum Brunavarna Suðurnesja á síðasta ári tæplega 1300 talsins og um 700 sjúkraflutningar af þeim voru til Reykjavíkur. Fjöldi sjúkraflutninga í janúar á þessu ári voru 154 á svæði Brunavarna Suðurnesja. Þrír sjúkrabílar eru staðsettir í Keflavík og oft eru annir þeirra það miklar að í níu tilfellum á síðasta ári voru allir bílarnir í útkalli á sama tíma. Einn sjúkrabíll er staðsettur í Grindavík.
Sigmundur segir útköllin vera misalvarleg en allmörg tilfelli séu bráðatilfelli. „Góður útkallstími til Reykjavíkur er í kringum 30 mínútur. Þá er miðað við þann tíma frá því hringt er í neyðarlínuna og útkallið greint og þar til sjúkrabíllinn tilkynnir sig við Landspítalann í Reykjavík. Menn geta ímyndað sér það að vera með sjúkling í þessum ofsagangi sem verður til í sjúkrabíl á þessum hraða. Og einnig hvernig það sé að hjúkra og veita aðhlynningu og lífsbjargandi aðgerðir á 160 km hraða í sjúkrabíl í bráðaakstri til Reykjavíkur. Oft er þetta við erfið veðurskilyrði og mikla umferð á Reykjanesbraut, þannig að líf og limir allra í sjúkrabílnum og í umferðinni eru í hættu," segir Sigmundur en í sumum tilfellum þarf aðstoð lögreglu við að rýma umferðarleiðir sjúkrabíla til Reykjavíkur. „Við erum í góðu samstarfi við lögregluembættin í Keflavík, Hafnarfirði og Reykjavík og notum við Tetra samskiptakerfið við að skipuleggja aðgerðir til að rýma gatnamót. Samvinna HSS og Brunavarna Suðurnesja hefur verið með eindæmum góð og mikill styrkur í því fyrir sjúkraflutningamenn að eiga þann möguleika að læknir og annað hjúkrunarfólk styrki starfsemina í erfiðum útköllum sem þessum."