Sokkinn prammi skaust upp á yfirborðið
Prammi sem dráttarbáturinn Gamli lóðs var með í togi og sökk með dráttarbátnum skömmu fyrir jól skaust upp á yfirborðið í gær eða nótt. Nú er björgunarbáturinn Siggi Guðjóns frá Sandgerði með prammann í togi utan við Sandgerði. Ekki er ljóst hvort komið verður með prammann til Sandgerðis.
Sigurður Stefánsson, hjá björgunarsveitinni Sigurvon, sagði í samtali við blaðið að sést hafi til prammans á dögunum. Hann var þá í kafi þar sem hann var fastur við dráttartaug Gamla lóðs sem liggur á 100 metra dýpi. Til stóð að gera út leiðangur til að losa prammann, enda var hann hættulegur skipum þar sem hann var á kafi rétt undir yfirborði sjávar. Pramminn hefur hins vegar slitið sig lausan og er nú hugsanlega á leiðinni til Sandgerðis.
Myndin: Björgunarskipið Hannes Þ. Hafstein ásamt dótturbátnum Sigga Guðjóns.