Sökk í Sandgerðishöfn
Una SU, 15 tonna eikarbátur, sökk við höfnina í Sandgerði í morgun. Báturinn hafði legið í nokkurn tíma við bryggjuna áður en eitthvað lét undan í morgun, en báturinn liggur enn á botni hafnarinnar og hefjast björgunaraðgerðir á morgun.
Samkvæmt upplýsingum frá Gísla Reynissyni sem heldur úti síðunni www.aflafrettir.com var Una smíðuð á Akureyri árið 1972 og hét fyrst um sinn Sunna SK og var gerður út frá Sauðárkróki.
Báturinn kom til Sandgerðis árið 1994 þegar Guðjón Bragasson keypti bátinn, í félagi við aðra, og hét hann þá Bragi GK. Náði hann því einu sinni að koma með um 17 tonn úr einni veiðiferðinni á netum.
Undir það síðasta hét báturinn Una SU og var gerður út á net frá 12. mars 2002 og til 29. nóvember 2003. Þess má einnig geta að árið 2003 veiddi enginn netabátur á landinu meira af skötusel.
VF-mynd/Þorgils - Einungis möstur Unu standa uppúr sjónum