Atnorth
Atnorth

Fréttir

Sögu- og fræðasetur prestsetra í Garðinn?
Föstudagur 17. október 2003 kl. 12:37

Sögu- og fræðasetur prestsetra í Garðinn?

Prestsetrið að Útskálum var byggð árið 1890 og hefur í gegnum tíðina verið mikið stolt Garðmanna, enda húsið myndarlegt þar sem það stendur upp á hólnum að Útskálum með útsýni yfir alla byggðina. Þarna var Sparisjóðurinn í Keflavík stofnaður, einnig sveitarfélagið Gerðahreppur, að Útskálum var skólastarf myndarlegt og lengi mætti telja. Gamla prestsetrið er í eigu prestsetrasjóðs og á þeirra ábyrgð. Skugga hefur hins vegar borið á síðustu árin. Framtíð prestsetursins að Útskálum hefur verið nokkuð óljós eftir að innviðir hússins voru fjarlægðir fyrir nokkrum árum vegna þess að húsið hélt hvorki vatni né vindum. Eina sem stendur núna eru útveggir og þak. Neglt hefur verið fyrir glugga þegar svo sorglega vildi til að einhverjir óprúttnir brutu allar rúður í húsinu. Útlitið á Útskálum er því nokkuð dapurlegt.
Teikningar að prestbústað liggja fyrir. Hins vegar hefur nýlega verið keypt myndarlegt hús í Garði, Presthús, þar sem sóknarpresturinn býr. Með teikningar í farteskinu hefur sóknarnefndin nú tekið frumkvæði í málinu til að endurreisa Útskála á einhvern máta. Nefndin hefur nú forgöngu um að kanna möguleika á framtíðarnýtingu hússins að Útskálum. Til samstarfs voru fengnir aðilar sem sýnt hafa Útskálum áhuga eða tengjast staðnum vegna sinna stofnana. Nefnd var skipuð til að vinna að málinu. Hana skipa séra Björn Sveinn Björnsson sóknarprestur, Gunnar Kristjánsson prófastur, Geirmundur Kristinsson sparisjóðsstjóri Sparisjóðsins í Keflavík, Ingimundur Þ. Guðnason oddviti Gerðahrepps og Jón Hjálmarsson formaður sóknarnefndar Útskálakirkju. Geirmundur á sæti í nefndinni af sögulegum ástæðum þar sem Sparisjóðurinn var stofnaður í húsinu. Fulltrúi Gerðahrepps á einnig sæti í nefndinni af sömu ástæðu.
Nefndin hefur þegar komið fram með sína fyrstu hugmynd, sem er sögu- og fræðasetur prestsetra á Íslandi. Þá er gert ráð fyrir því að söfnuðurinn eigi sína aðstöðu í húsinu, auk aðstöðu fyrir sóknarprest. Gert er ráð fyrir íbúð í húsinu fyrir aðila sem vinnur að rannsóknar- eða fræðistörfum. Þetta yrði fyrsta sögu- og fræðasetur sinnar tegundar á Íslandi. Húsið á sér mikla sögu en það er elsta eða eitt af elstu uppistandandi prestsetrum landsins, byggt árið 1890. Saga prestsetra á Útskálum er hins vegar mun eldri og til eru heimildir frá því um 1300 um prestsetur á Útskálum.
Uppbygging Útskála mun kosta töluverða fjármuni en tilboð í að endurbyggja Útskála sem prestsetur og hafa endurbygginguna í gömlum stíl voru 28 - 34 milljónir og dýrast tæpar 48 miljónir. Sóknarnefndin hefur hins vegar orð húsafriðunarnefndar fyrir því að nóg sé að halda ytra útliti hússins í upprunalegum stíl og húsið megi innrétta á þann máta sem best nýtist. Þannig sé hægt að spara umtalsverða fjármuni og húsið komi að mun meira gagni, en ef það væri útfært í upprunalegt horf að innan sem utan.
Jón Hjálmarsson, formaður sóknarnefndar, sagðist búast við að undirbúningur geti tekið ár þar til framkvæmdir hefjist. Það sé markmið að koma þessum helga stað í ásættanlegt horf í heild sinni og kostur ef það væri hægt að vinna þá framkvæmd samhliða þeim lagfæringum sem fara fram á Útskálakirkju og hefjast á næstu vikum.
Bílakjarninn
Bílakjarninn