Söfnuðu tæpri milljón fyrir alþjóðaleika Special Olympics
Síðastliðinn föstudag stóðu strákarnir í Hjálmum fyrir styrktartónleikum vegna ferðar íslenskra keppenda á alþjóðaleika Special Olympics í Aþenu sem fram fer í júní. Sérstakur gestur var hljómsveitin Valdimar sem flestir Suðurnesjamenn ættu orðið að þekkja. Með tónleikunum á Nasa söfnuðust alls 960 þúsund krónur sem ættu að nýtast vel fyrir Ólympíufarana. Í tilkynningu frá Hjálmum segir: „Þegar STEF gjöld hafa verið greidd þýðir það að um 920 þús renna beint til ferðarinnar. Miklu meira en við þorðum að vona. Takk fyrir allir saman og takk fyrir skemmtilega tónleika. Sérstakar þakkir fá Elva og Helgi Special Olympics-farar fyrir að rífa upp stemninguna og geisla af gleði,“ sögðu Hjálmar á facebook síðu sinni.
Málefnið er verðugt enda um stærsta verkefni Íþróttasambands fatlaðra árið 2011 að ræða. Fjármögnun verkefna hefur verið erfið undanfarið en ÍF hefur ávallt notið mikils stuðning og velvilja, fyrirtækja sem almennings. Þrátt fyrir tímabundna erfiðleika var ákveðið að nýta kvóta Íslands og senda 38 íslenska keppendur á alþjóðaleikana til keppni í 8 íþróttagreinum.