Söfnuðu rúmlega 100 þúsund krónum til styrktar SOS Barnaþorpunum
Nemendur í þriðja og sjötta bekk Stapaskóla söfnuðu 102.500 krónum til styrktar SOS Barnaþorpanna á aðventunni. Nemendurnir eru svo sannarlega með hjartað á réttum stað en í stað þess að gefa jólagjafir sín á milli á litlu jólunum, eins og hefð er fyrir, vildu þau láta gott af sér leiða. Upphæðin sem safnaðist mun renna óskipt til fjölskyldueflingar SOS í Malaví.
Rakel Lind Hauksdóttir, fjármála- og fjáröflunarstjóri SOS á Íslandi, veitti framlagi nemenda Stapaskóla viðtöku nú fyrir jólin. „Það var svo gaman að hitta þessa flottu krakka sem eru í raun fyrirmyndir. Þetta framlag skiptir svo sannarlega máli því án fólks með svona hugarfar, eins og nemendur Stapaskóla, gætu samtökin ekki verið til staðar fyrir börn í neyð. Ég vil fyrir hönd SOS Barnaþorpanna þakka nemendum fyrir af öllu hjarta. Félagsleg arðsemi framlags frá Íslandi 66-faldast á verkefnasvæði okkar í Malaví svo segja má að krakkarnir í Stapaskóla hafi safnað ígildi um 6,8 milljóna íslenskra króna,“ segir Rakel Lind.
Fjölskylduefling SOS styður við barnafjölskyldur sem búa við krefjandi aðstæður og eiga foreldrarnir á hættu á að missa börn sín frá sér. Fjölskyldueflingin aðstoðar foreldra barnanna að standa á eigin fótum svo þeir geti annast börnin sín. Verkefnið í Malaví er fjármagnað af SOS Barnaþorpunum á Íslandi og hófst fyrr á þessu ári.