Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Söfnuðu 340 þúsundum fyrir Birki
Þriðjudagur 6. september 2011 kl. 07:03

Söfnuðu 340 þúsundum fyrir Birki

Hópur listafólks og hönnuða, sem m.a. sýndi á Flughóteli á nýliðinni Ljósanótt, safnaði rétt tæpum 340 þúsund krónum með listaverkauppboði. Tilgangur uppboðsins var að styrkja ungan dreng  í Reykjanesbæ, Birki Alfons Rúnarsson, og fjölskyldu hans en  Birkir greindist með bráðahvítblæði í janúar síðastliðnum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Uppboðið fór fram sl. laugardag á Flughóteli og var stjórnað af útvarpskonunni Svansí á Bylgjunni. Gátu gestir boðið í fjölbreytt úrval muna, s.s. ljósmyndir, málverk, skúlptúra og textíl. Auk þess gaf Helga Steinþórsdóttir 500 krónur af hverju seldu armbandi á Ljósanótt. Einnig var foreldrum Birkis afhent gjafabréf sem innihéldu gistingu og kvöldverð á Flughóteli og fjöldkyldumyndatöku hjá Kolbrúnu Ingu Söring. Vill hópurinn koma á framfæri innilegu þakklæti til þeirra sem tóku þátt í uppboðinu.


Listafólkið sem stóð að uppboðinu með Flughóteli voru:
Ella, Ellert Grétarsson, Elísbet Ásberg,  Fjóla Jóns, Helga Steinþórsdóttir, Linda Steinþórsdóttir, Íris Rós Söring, Heiðrún Þorgeirsdóttir, Jóna Gunnars, Jón Adólf Steinólfsson, Karin Esther, Óla Ólafs , Rakel Steinþórsdóttir, Reynir Sýrusson, Sossa, Tómas J. Knútsson.


Myndin: Foreldrar Birkis, þau Siddý Gunnars og Rúnar Valgeir, tóku við afrakstri uppboðsins sem Bergþóra Sigurjónsdóttir, hótelstjóri Flughótels, afhenti þeim í lok Ljósanætur.