Söfnuðu 321.000 krónum fyrir BUGL
Fjörheimaunglingar seldu armbönd fyrir 321.000 til styrktar BUGL (Barna og unglinga geðdeildar Landspítala Íslands) í nýafstöðnu átaki.
Um var að ræða grænt armband sem á stóð GEÐVEIKT en það orð hefur öðlast jákvæða merkingu í málfari ungs fólks í dag. Dorrit Moussaieff forsetafrú veitti fyrsta armbandinu viðtöku í Hinu húsinu við upphaf verkefnisins sem var samstarfsverkefni BUGL og Samfés, Samtaka félagsmiðstöðva á Íslandi.
Það er skemmst frá því að segja að Fjörheimakrakkarnir voru mjög áhugasöm um sölu á armbandinu en 20 stúlkur og 11 drengir tóku þátt í sölu á 640 armböndum. Veitt verða verðlaun fyrir söluhæstu einstaklinganna en það voru þeir Björn Traustason og Sigurður Björn Teitsson. Þeir munu fá inneignarnótu afhenta frá samtökunum Betri bæ að verðmæti 2.500 krónur hvor um sig á sameiginlegu balli með félagsmiðstöðinni Truflaðri Tilveru föstudaginn 8. apríl n.k.
Krakkarnir sem tóku þátt í verkefninu munu svo taka þátt í Geðveikri forvarnarnótt sem haldin verður í Fjörheimum föstudagsnóttina 15. apríl n.k. En þá munu þau fá allskyns fræðslu ásamt sprelli alla nóttina.
Starfsfólk Fjörheima vill koma á framfæri kærum þökkum til allra sem komu að verkefninu á einn eða annan hátt.
VF-Mynd/Þorgils Björn og Sigurður voru söluhæstir Fjörheimakrakka í söfnuninni