Sofnaði á Reykjanesbrautinni og ók á kyrrstæðan bíl
Ökumaður sem sofnaði undir stýri á Reykjanesbraut um helgina ók á bifreið sem stóð mannlaus og kyrrstæð í vegöxl. Maðurinn slapp án meiðsla en bifreiðirnar voru báðar óökufærar eftir áreksturinn.
Þá hafði lögreglan á Suðurnesjum afskipti af ökumanni sem ók viðstöðulaust yfir stöðvunarskyldu í Njarðvík. Þegar stöðva átti för hans jók hann verulega við hraðann og skeytti ekki um forgangsljós lögreglubifreiðarinnar. Hann ók meðal annars öfugu megin við umferðareyju áður en hann loksins ók inn á bifreiðastæði og lauk þar með akstri hans. Hann er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna.