Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Snyrtilegir garðar í Garðinum verðlaunaðir
Föstudagur 8. ágúst 2003 kl. 12:13

Snyrtilegir garðar í Garðinum verðlaunaðir

Fegrunar- og umhverfisnefnd Gerðahrepps hefur afhent verðlaun og viðurkenningar fyrir snyrtilega og fallega garða í sveitarfélaginu þetta árið. Að þessu sinni voru þrír garðar verðlaunaðir. Verðlaunagarðurinn 2003 er að Garðbraut 86. Hann er mjög fallegur og mikið gróinn, skreyttur með gosbrunni. Garðurinn fékk einnig viðurkenningu sem fallegasti garðurinn í Gerðahreppi árið 1984. Eigendur hans eru hjónin Vilhelm Guðmundsson og Björg Björnsdóttir.Lyngbraut 7 fékk viðurkenningu fyrir snyrtilegan og fallegan garð. Hann eiga hjónin Sæunn Andrésdóttir og Tryggvi Einarsson. Götuhlið garðsins byggist upp á steinum og grjóti, skreytt með brunni og trépöllum. Framkvæmdir við garðinn standa enn yfir og hann á eftir að þróast enn frekar segja garðeigendurnir.

Eyjaholt 5 fékk viðurkenningu fyrir sérstæðan og listrænan garð. Eigendur hans eru hjónin Bryndís Rögnvaldsdóttir og Unnar Guðmundsson. Lítil listaverk í garðinum, máluð á grjót, vekja athygli.

Fegrunar- og umhverfisnefnd Gerðahrepps vill koma á framfæri þökkum til allra þeirra Garðbúa sem sýnt hafa gott fordæmi með því að fegra umhverfi sitt. Margir garðar lofa góðu í dag, auk allra þeirra sem fengið hafa viðurkenningar og verðlaun á liðnum árum. Átak í gróðursetningu trjáa og blóma á vegum sveitarfélagsins virkar einnig hvetjandi og gefur byggðarlaginu fallegan svip, svo eftir er tekið, segir í stuttu erindi frá nefndinni.

Myndin: Úr verðlaunagarðinum að Garðbraut 86 - eigendurnir Björg og Vilhelm við gosbrunninn góða.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024