Snúið til Keflavíkurflugvallar með bilaðan hreyfil
Talsverður viðbúnaður var á Keflavíkurflugvelli í morgun vegna farþegaþotu frá Delta sem var á leið yfir Atlantshafið. Bilun kom upp í vinstri hreyfli vélarinnar og var henni snúið til Keflavíkurflugvallar, þar sem hún lenti rétt fyrir klukkan níu í morgun.
Farþegum vélarinnar var komið í aðra flugvél sem flutti þá til London. Þotan var færð til skoðunar en samkvæmt upplýsingafulltrúa Isavia var ekki mikil hætta talin á ferðum í morgun.
Á myndinni má sjá þotuna þar sem hún stendur á austurhlaði Keflavíkurflugvallar og bíður þess að gert verði við hreyfilinn.