Snúið aftur til Keflavíkur skömmu eftir flugtak
Farþegaflugvél United Airlines af gerðinni Boeing 757-244 var snúið aftur til Keflavíkurflugvallar í hádeginu við skömmu eftir flugtak í hádeginu vegna vélarbilinar. Vélin var á leið frá Keflavík til New Jersey í Bandaríkjunum með 178 farþega um borð.
Lendingin tókst vel og farþegarnir eru komnir í Flugstöð Leifs Eiríkssonar þar sem viðbragðshópur Rauða krossins veitti farþegum flugvélarinnar sálrænan stuðning.
Farþegaþotan tók á loft frá Keflavíkurflugvelli skömmu eftir kl. 12 á hádegi og tók stefnuna vestur um haf. Eftir um hálftíma flug óskaði flugstjóri vélarinnar eftir því að fá að snúa aftur til Keflavíkurflugvallar vegna vandræða með búnað vélarinnar.
Viðbragðsáætlun var virkjuð og viðbragðsaðilar settir í viðbúnaðarstöðu þ.e. slökkvilið, sjúkralið, lögregla og björgunarsveitir, í samræmi við flugslysaáætlun almannavarna. Þegar þotan var lent var viðbúnaði aflétt.
Þotan kemur til lendingar á Keflavíkurflugvelli skömmu eftir hádegið í dag.
Mikill viðbúnaður var á Keflavíkurflugvelli vegna lendingar vélarinnar.
Farþegar koma frá borði. Þeir munu gista á hóteli í Keflavík í nótt.