Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Snörp orðaskipti  í bæjarstjórn Reykjanesbæjar
Þriðjudagur 21. mars 2006 kl. 19:39

Snörp orðaskipti í bæjarstjórn Reykjanesbæjar

Snörp orðaskipti urðu um Varnarliðsmálin á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ núna síðdegis og gengu ásakanir á víxl. Jóhann Geirdal (S) sakaði bæjaryfirvöld um að vera að nota málið til að skapa sér ímynd fremur en að undirbúa viðbrögð, þegar hann talaði fyrir bókun sem minnihlutinn lagði fram á fundinum. Árni Sigfússon, bæjarstjóri, lagði fram bókum þar sem segir að ekki sé ástæða til að svara þeim dylgjum er fram koma í bókun minnihlutans. Þeir bæjarfulltrúar sem til máls tóku voru þó sammála um það eitt að umræðan um Varnarliðsmálin yrði að vera hafin yfir pólitískt argaþras.

Í bókun minnihlutans segir að nú þegar ljóst sé að Bandaríkjaher ætli að loka herstöðinni á Keflavíkurflugvelli, sé mikilvægast að gæta hagsmuna þeirra starfsmanna VL, sem nú eru að missa atvinnu sína.
„Fyrstu viðbrögð eftir að þessi tíðindi bárust bera vottt um að ekki hafi verið unnin áætlun um hvernig bregðast ætti við þeim. Mönnum hættir til að sjást yfir það sem nú skiptir mestu máli, en leggja meiri áherslu á að vera fljótir að taka saman upptalningu á þeim hugmyndum sem nefndar hafa verið að gætu tekið við þegar herinn hverfur á brott“, segir í bókun minnihlutans, og er þá greinilega verið að vísa til þeirrar samantektar sem Árni Sigfússon, bæjarstjóri, kynnti á fundi sem hann hélt í gær með starfsmönnum Varnarliðsins.

Í bókununni segir ennfremur: „Það sem við teljum að eigi að hafa algjöran forgang er, að stofnað verði til samvinnu þeirra sem veitt geta stuðning og aðstoð við þessar aðstæður. Nefna má í því sambandi stéttarfélög þeirra sem fá uppsagnarbréf, vinnumiðlun, kirkjuna og félagsmálaþjónustu sveitarfélaganna þar sem umræddir starfsmenn búa.
Tryggja þarf að haft verði samband við alla þá sem fá uppsagnarbréf þegar þau hafa verið undirrituð.
Þá þarf að tryggja að hratt sé unnið að því að fá upplýsingar um hverjir muni fá störf sín aftur þó hjá öðrum atvinnurekanda sé. Sá hópur mun búa við minni vanda. Þegar ljóst er hverjir eru að missa vinnu sína varanlega er nauðsynlegt að hópurinn verði greindur og leitað leiða til að útvega störf sem henta þeim hópi, m.a. verði fólki tryggður aðgangur að endurmenntun til að styrkja stöðu þess á vinnumarkaði. Verði einhverjir án vinnu þegar kemur að lokum uppsagnarfrests er nauðsynlegt að til verði fjármagn til að tryggja því fólki eftirlaun þar til úr þeirra málum rætist, með atvinnu eða töku lífeyris, það getur kallað á sérstækar aðgerðir sem þá verður að grípa til.
Samhliða verði unnið að því að skýra hvaða mannvirki verða tiltæk til atvinnuuppbyggingar. Hvernig þau mannvirki sem ekki munu nýtast verða fjarlægð og jafnframt hvernig verður gengið frá viðskilnaði við landið.
Þegar það liggur fyrir er ekki vafi á að fjölmargir aðilar, einstaklingar og fyrirtæki munu sjá sér hag í að hefja starfsemi í þeim mannvirkjum".


Snarpar umræður urðu um bókunina á fundinum. Sakaði Jóhann Geirdal (S) bæjaryfirvöld um áralangt aðgerðar- og skilningsleysi í þessum málum, þar sem löngu var ljóst í hvað stefndi varðandi VL. Núverandi meirihluti hafi neitað að horfast í augu við raunveruleikann og að halda röngum upplýsingum að almenningi, annað hvort til að gæta pólitískra hagsmuna eða þá að hann hafi einfaldlega ekki skilið hvað var að gerast. Jóhann átaldi einnig meirihlutann fyrir að vera að nota erfiðleika starfsfólks VL til að beita þrýstingi á yfirvöld. Í samtali við VF sagði Jóhann að tilefni þessara orða væru þau ámæli sem hann hefði lengið legið undir frá hálfu meirihlutans að honum bæri að þakka hvernig þessi mál hefði þróast.
Árni Sigfússon, bæjastjóri, lagði síðan fram svohljóðandi bókun:
„Sjálfstæðismenn taka undir megininntak bókunar Samfylkingar og Framsóknar sem snýr að verkefnum í þágu starfsfólks Varnarliðsins og hefur þegar hafist undirbúningur í þá veru. Sjálfstæðismenn leggja áherslu á samstöðu um þau verkefni sem nú eru framundan gagnvart starfsfólki á varnarsvæðinu og nýjum verkefnum sem þar verður sinnt!
Því verður ekki svarað öðrum dylgjum sem fram koma í bókun minnihlutans".



Mynd: Frá fundi Árna Sigfússonar með starfsfólki VL í gær. VF-mynd: Ellert Grétarsson



Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024