Smyrill er "puttafugl" í Sandgerði
Þessi myndarlegi smyrill gerði sig heimakominn í fiskvinnslufyrirtæki í Sandgerði í gærdag og er þar nú í góðu yfirlæti hjá starfsmönnum fyrirtækisins. Fuglinn er mjög spakur og virðist mjög vanur því að umgangast fólk. Hann bítur ekki frá sér og kemur á putta eins og hver annar páfagaukur. Fuglinn virðist ekki sjúkur að sjá en þessi ást á mannfólkinu verður að teljast sérstök. Þegar ljósmyndari Víkurfrétta skoðaði fuglinn nú síðdegis var einn af "fóstrum" hans úti í búð að kaupa kjötmeti í gogginn.Starfsmennirnir vita ekki hvert framhaldið verður og hvað gert verði við smyrilinn. Þeir hafa ekki ennþá sett sig í samband við Náttúrufærðistofnun né Fræðasetrið í Sandgerði. Ef smyrillinn tekur vel til matar síns og tekur flugið er honum frjálst að fara. Óneitanlega glæsilegur fugl að hafa á puttanum.
VF-mynd: Hilmar Bragi Bárðarson
VF-mynd: Hilmar Bragi Bárðarson