SMS leikur Víkurfrétta: Evrópuferð í aðalvinning
Á baksíðu Víkurfrétta í dag er auglýsing þar sem SMS leikur Víkurfrétta og samstarfsfyrirtækja er kynntur. Aðalvinningur er Evrópuferð til einhvers af áfangastöðum Flugleiða að eigin vali, auk þúsunda aukavinninga. Jónas Franz Sigurjónsson markaðsstjóri Víkurfrétta segir að á síðustu mánuðum hafi Víkurfréttir verið að þróa fjölbreytta SMS þjónustu: „Við byrjuðum með tóna og tákn þar sem fólk getur fengið sent skjámyndir og hringitóna í gsm símann sinn. Þessu hefur verið vel tekið og við erum að sjá að fólk notfærir sér þessa þjónustu. Meðal annars hafa íþróttafélög á svæðinu óskað eftir að við tökum þeirra merki og hvatningarlög félaganna inn í þessa þjónustu,“ segir Jónas og bætir við að verið sé að útfæra þessa þjónustu enn frekar: „Á næstunni munum við bjóða uppá SMS fréttaþjónustu og verið er að skoða ýmsa aðra möguleika. Leikurinn sem fór af stað í morgun hefur fengið frábærar viðtökur, enda eru vinningarnir glæsilegir og þrítugasta hvert SMS skeyti sem sent er fær aðalvinning, s.s. bíómiða, tölvuleiki, matarúttektir o.s.frv.“