Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Smithætta vegna förðunarhúðflúra
Föstudagur 29. apríl 2005 kl. 12:12

Smithætta vegna förðunarhúðflúra

Það er að færast í aukanna að konur heimsæki snyrtistofur sem sérhæfa sig í húðflúr förðun. Með þessari tækni er hægt að húðflúra augabrúnir, línur umhverfis augu, skerpa útlínur vara, auk hefðbundinna mynda. Það hefur hins vegar vaknað sú spurning hvort áhöldin og verklagnin sem notuð sé til verksins uppfylli strangar kröfur Landlæknisembættis og Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja þar um.

Á fjórum stöðum hér í Reykjanesbæ og nágrenni liggur grunur um að framkvæmdar séu slíkar förðunaraðgerðir þar sem notast er við nokkurskonar penna sem er áfastur gangverki. Að sögn Enoks Óskars Þorvaldssonar, annars eiganda stofunnar Húðflúr og götun í Reykjanesbæ, er ekki mögulegt að dauðhreinsa slík tæki. Ekki er hægt að taka þau í sundur líkt og tól þeirra sem húðflúra.

Tækin sem notuð eru við þessar fegrunaraðgerðir eru að mestu einnota. Hægt er að losa nálarnar og hettur sem hylja tækið. Ekki er hægt samkvæmt upplýsingum Víkurfrétta að koma í veg fyrir að blóðvökvi og litarefni fari inn í tækið. Að þessu leyti eru áhöld fegrunarhúðflúrara tímasprengja því ekki er hægt að koma í veg fyrir smit á sjúkdómum eins og lifrarbólgu C, lifrarbólgu B, HIV/alnæmi og ýmsum bakteríum.

Hættan á að smitast af lifrarbólgu C er sérlega mikil þegar notast er við holar nálar eins og húðflúrarar gera. Þetta afbrigði getur leitt til lifrarskemmda og krabbameins í lifur. Lifrarbólga B getur haft í för með sér magnleysi, vanlíðan, gulu, kviðverki svo eitthvað sé nefnt. Alnæmisveiran (HIV) veldur alnæmi og er ólæknandi. Ýmsar bakteríur eins og klasabakteríur og keðjubakteríur geta valdið húð- og blóðsýkingu. Afleiðingarnar geta verið alvarlegar og sár geta skilið eftir sig ör.

Að sögn Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja eru engar snyrtistofur í Reykjanesbæ með tilskilin leyfi til að framkvæma förðunarhúðflúr en leyfi þarf frá þeim og Landlæknisembættinu. Enn fremur væri ekki vitað um slíkar stofur í Reykjanesbæ og nágrenni.

Myndin er ótengd fréttinni

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024