Smíða leikföng og gefa leikskólum
- Nemendur Smíðasmiðjunnar láta gott af sér leiða
Nemendur Smíðasmiðjunnar í Fjölbrautaskóla Suðurnesja hafa í vetur smíðað ýmis leikföng og afhent leikskólum á Suðurnesjum að gjöf. Leikföngunum hefur verið vel tekið á leikskólunum og segir Gunnar Valdimarsson, kennari við FS, að ánægjan sé ekkert minni hjá sínum nemendum sem smíðað hafa leikföngin. „Við höfum gantast með það við nemendur að það séu ef til vill aðeins nokkur ár í að þeir fari með sín börn á leikskólann og sjái þá leikföngin sem þeir smíðuðu. Margir eiga líka systkini og frændsystkini á leikskólunum svo það hafa oft verið innilegir fagnaðarfundir þegar við mætum að afhenda leikföngin,“ segir hann.
Smíðasmiðjan hefur verið starfrækt í þrjú ár. Nemendur hennar hafa stundað fornám við FS. „Þetta er hópur sem unnið er sérstaklega með. Hugmyndin er að í Smíðasmiðjunni smíðum við hluti sem gagnast öðrum. Nemendurnir hafa kannski ekki fengið mikið hrós í sínu námi í gegnum tíðina en í Smíðasmiðjunni upplifa þeir að gera gagn og gleðja aðra með verkum sínum,“ segir Gunnar. Nokkrir nemendur hafa hafið nám í smíðum og öðrum iðngreinum í framhaldinu.
Leitað var eftir hugmyndum frá starfsfólki leikskóla um hvað gæti nýst þar. Nemendur Smíðasmiðjunnar hafa smíðað púsl, gröfur, hlaupahjól, trébíla og lestir, svo nokkur dæmi séu nefnd. Eins og áður sagði hafa allir leikskólar á Suðurnesjum fengið gjafir frá Smíðasmiðjunni. Reyndar varð einn leikskóli á Ásbrú útundan, en einfaldlega vegna þess að skipuleggjendur vissu ekki af honum. En úr því verður bætt með tíð og tíma þannig að allir leikskólar á Suðurnesjum eigi leikföng frá Smíðasmiðjunni.
Börnin á Tjarnarseli leika með gröfu og vörubíla frá nemendum Smíðasmiðjunnar í FS.