Smásaga Eyþórs Inga í fyrsta sæti
Eyþór Ingi Brynjarsson, nemandi í 6. bekk í Holtaskóla í Reykjanesbæ, vann til verðlauna í sínum aldursflokki í smásagnasamkeppni Kennarasambandsins. Verðlaunin voru veitt síðasta miðvikudag á Alþjóðadegi kennara.
Saga Eyþórs Inga heitir Nýi kennarinn í Litlahól. Þetta var í annað sinn sem Kennarasambandið í samstarfi við Heimili og skóla efna til keppni af þessu tagi í tilefni af Alþjóðadegi kennara.
Mjög góð þátttaka var í smásagnakeppninni en tæplega tvö hundruð smásögur bárust frá börnum og ungmennum í leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum. Keppt var í fimm flokkum; leikskólar, 1. til 4. bekkur grunnskóla, 5. til 7. bekkur grunnskóla, 8. til 10. bekkur grunnskóla og í flokki framhaldsskóla. Flestar sögur bárust í flokki 5. til 7. bekkja grunnskóla eða um eitt hundrað sögur.
Verðlaunasögurnar verða birtar í Skólavörðunni. Dómnefnd skipuðu Kristín Ómarsdóttir skáld, Kristján Jóhann Jónsson, dósent á Menntavísindasviði HÍ, og Bryndís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri SAMFOK. Verðlaunahafarnir fengu Kindle-lestölvu auk blóma og viðurkenningarskjals.