Smári með tónlistina í tveimur sýningum í New York
Tónlistarmaðurinn Smári Guðmundsson er höfundur tónlistar í tveimur sýningum í New York nú á haustmánuðum 2024. Annað þeirra er dansverkið [CRACKS] eftir Christina Kyriazidi sem var frumsýnt í TheaterLab á Manhattan 4. október sl. Sama dag var tónlistin við verkið gefin út á vegum Smástirnis.
Þá er dans- og leiksýningin Oblivion sýnt í Theater Row leikhúsinu við 42nd Street í september og október. Christina Kyriazidi er einnig höfundur þess verks og Smári höfundur tónlistar. Verkið var frumsýnt í Technochoro Fabrika í Aþenu á Grikklandi í nóvember 2023 og vakti verðskuldaða athygli. Í kjölfarið var sýningin sett upp í Berlín í ACUD Theater í febrúar á þessu ári og fór svo aftur í sýningu í Aþenu í mars. Sýningarnar í New York eru hluti af hátíðinni United Solo. Tónlistin úr verkinu hefur verið gefin út hjá Smástirni í samvinnu við Öldu Music.
Undanfarin ár hefur Smári Guðmundsson unnið með listahópum frá Þýskalandi og hefur í því samstarfið samið og tekið upp tónlist bæði fyrir útvarpsleikrit og dansverk. Árið 2022 gaf hann út smáskífuna Crete sem var unnin á Krít og einnig hljóðverkið Aging, sem var samið fyrir dansverk sem var frumflutt á hátíðinni We Love Stories á Krít. Gjöfult samstarf Smára við gríska leikskáldið og danshöfundinn Christina Kyriazidi hófst þegar þau kynntust þegar hann bjó og starfaði í Berlín fyrir nokkrum árum.
Smári Guðmundsson hefur verið virkur þátttakandi í íslensku tónlistarlífi í mörg ár og líklega þekktastur sem hluti af hljómsveitinni Klassart. Hann hefur þó einnig fengist við fjöldamörg önnur tónlistartengd verkefni, var m.a. í hljómsveitunum Lifun og Tommygun Preachers og hefur einnig gefið út töluvert af tónlist undir eigin nafni. Þá samdi Smári söngleikinn Mystery Boy sem var valinn áhugasýning ársins af Þjóðleikhúsinu árið 2018. Hann hefur rekið útgáfufyrirtækið og upptökuverið Smástirni í rúm 5 ár og vinnur verk sín undir merkjum þess.