Smáratorg byggir 23 þúsund fermetra í Tjarnarhverfi næsta vor
Smáratorg er eitt þeirra fyrirtækja sem hyggst nýta sér möguleika svæðsins í Innri Njarðvík. Á næsta vori munu framkvæmdir hefjast við 23 þúsund fermetra verslunarhús á lóð þeirri sem nú er nýtt undir go-kart braut. Henni verður ætlað svæði hinum megin við Reykjanesbrautina, nær Grindavíkurafleggjara.
Agnes Geirsdóttir, framkvæmdastjóri Smáratorgs, segir að hugsanlega muni byggingin rísa í tveimur áföngum. „Þetta er spennandi kostur og okkur hlakkar mikið til að koma inn á þetta svæði,“ segir Agnes. Í byggingunni er gert ráð fyrir verslun Rúmfatalagersins, matvöruverslun og gjafavöruverslun. Agnes segir það ekki frágengið hvaða matvöruverslun verði í byggingunni.
Auk verslunarhússins er gert ráð fyrir 1500 fermetrum undir bensínstöð og 1000 fermetrum undir veitingastað á sömu lóð.
Smáratorg er ekki eini aðilinn sem hyggur á framkvæmdir í svokölluðu „Landi tækifæranna“. Nýlega var sett upp skilti á vegum Atafls, þar sem tilkynnt er um byggingu nýs 6 þúsund fermetra verslunarhúsnæðis.
Þá hefur Fasteignafélagið Stoðir ehf. hefur óskað eftir því við umhverfis-, og skipulagsráð að skoðaðir verði stækkunarmöguleikar á lóðinni nr. 3 við Fitjar. En um er að ræða lóð verslunar Bónus og er fyrirhuguð viðbygging 850 m2. Umhverfis- og skipulagsráð hefur tekið jákvætt í erindið og er málið nú í vinnslu.
Núverandi húsnæðið er um 1100 m2 að flatarmáli og verslunin sjálf um 900 m2.