Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Smáhýsagarður eða iðnaðarsvæði á Miðnesheiði?
Þriðjudagur 8. ágúst 2017 kl. 08:00

Smáhýsagarður eða iðnaðarsvæði á Miðnesheiði?

20 ár frá lokun Rockville

Ratsjárstöð Varnarliðsins í Rockville á Miðnesheiði var byggð árið 1953. Hún var starfrækt til ársins 1997, þegar henni var lokað og ný stöð opnuð skammt frá. Það eru því 20 ár um þessar mundir frá lokun stöðvarinnar.
 
Í dag er fátt sem minnir á tilvist ratsjárstöðvarinnar. Fáein grenitré vekja athygli þegar horft er til svæðisins úr fjarska, tré sem uxu í skjóli húsa sem síðar voru rifin en um áratugur er síðan Rockville var jafnað við jörðu.
 
Þegar Rockville var og hét voru þar um 20 hermannaskálar, mötuneyti, pósthús og íþróttahús. Á staðnum voru einnig áberandi tröllvaxnar hvítar kúlur. Inni í þeim voru ratsjár sem höfðu það hlutverk að fylgjast með flugumferð og þá helst véla frá Sovétríkjunum.

 
Íslendingar sóttu í klúbbana
 
Í Rockville var einnig bar eða klúbbur, sem naut mikilla vinsælda. Íslendingar sóttu m.a. klúbbinn í Rockville mjög stíft. Í Víkurfréttum árið 1996 er greint frá því í nóvember að Sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli, sem var sérstakt lögregluembætti, hafi stöðvað stóran hóp Íslendinga sem voru á leið á skemmtun í klúbbi Varnarliðsins í Rockville. Hluti hópsins var kominn inn á klúbbinn og fóru lögreglumenn inn á staðinn og vísuðu fólkinu út. Nálægt eitthundrað manns voru  á gestalista og ætluðu á staðinn en fengu ekki inngöngu.
 
Þorgeir Þorsteinsson, þáverandi Sýslumaður á Keflavíkurflugvelli, sagði í samtali við Víkurféttir á þeim tíma að þetta næði ekki nokkurri átt. Klúbbar varnarliðsins eru fyrst og fremst fyrir varnarliðsmenn og gesti þeirra og að það gengi ekki að stórir hópar Íslendinga væru að sækja varnarliðsklúbba. Helst áttu lögregluyfirvöld erfitt með að hafna Íslendingum inngöngu sem boðið var í klúbbana í varnarstöðinni í gegnum alþjóðleg félög eins og Lions og Kiwanis en þessir klúbbar voru starfandi á Keflavíkurflugvelli.
 
Þorgeir sagði fulla ástæðu til að taka í taumana gagnvart Rockville-klúbbunum en þar höfðu nokkrar „íslenskar“ skemmtanir farið fram þá um haustið. Jafnvel kom til greina að loka alveg á heimsóknir Íslendinga í Rockville.
 
Veitingamenn á Suðurnesjum fundu mikið fyrir Íslendingaveislunum í klúbbum kanans. Það væri erfitt að keppa við klúbbana á Vellinum og í Rockville en margfalt lægra vín- og bjórverð var sögð ástæða þess að Íslendingar sóttust eftir því að komast í klúbbana.
 
Ári eftir að Sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli vísaði Íslendingunum út úr klúbbnum í Rockville var stöðinni lokað og starfsemin flutt. Þá varð Rockville að draugabæ um nokkurt skeið eða þar til Byrgið gerði samning við utanríkisráðuneytið um afnot af húsakosti í Rockville fyrir meðferðarstöð. Byrgið var með starfsemi í Rockville í nokkur misseri eða þar til í júní 2003 að þeim var gert að yfirgefa staðinn. Byrgið flutti í uppsveitir Árnessýslu, Rockville varð aftur draugabær og nokkrar byggingar urðu eldi að bráð. Byggingar þar höfðu svo vart verið rifnar þegar tilkynnt var um brottför Varnarliðsins frá Íslandi.

 
Fátt sem minnir á gamla tíð
 
Eins og áður segir þá er það trjágróður á svæðinu sem er það eina sem minnir á gömlu ratsjárstöðina þegar horft er til svæðisins úr fjarska. Þegar nær er komið þá má ennþá upplifa malbikaðar götur og sökkla þeirra bygginga sem þarna stóðu. Víkurfréttir settu flygildi á loft á svæðinu til að sýna lesendum sem best það umhverfi sem þar er. Fráveita er frá Rockville með útrás í Leirunni. Þá er stutt í rafmagn og bæði heitt og kalt vatn.

 
Ekki öryggisfangelsi - en smáhýsabyggð?
 
Landsvæðið sem var undir ratsjárstöðinni í Rockville er í Sandgerði. Árið 2011 samþykkti bæjarráð Garðs að sveitarfélögin Garður, Sandgerði og Reykjanesbær standi saman að þátttöku í útboði ríkisins vegna byggingar öryggisfangelsins og að öryggisfangelsins myndi rísa þar sem Rockville stóð áður. Skemmst er frá að segja að fangelsins reis á Hólmsheiði ofan Reykjavíkur.
Í aðalskipulagi fyrir Sandgerðisbæ er landsvæði merkt Rockville skipulagt sem blönduð landnotkun, sem gæti verið iðnaðarsvæði, verslunar- og þjónustusvæði og athafnasvæði. Samkvæmt því er ekki gert ráð fyrir íbúðabyggð á svæðinu en þar gæti risið hótel.

 
Fordómar fyrir smáhýsum?
 
Blaðamaður Víkurfrétta kannaði hug fólks til uppbyggingar á smáhýsabyggð í Rockville. „Hvernig tekur fólk í hugmynd um að leyfa þar „hjólhýsagarð“ eða „smáíbúðir“ til að leysa bráðan íbúðavanda á svæðinu? Þurfum við ekki að hugsa út fyrir boxið? Grjótaþorp á Miðnesheiði?,“ var það sem blaðamaður skellti í loftið á fésbókinni.
 
„Þetta þykir ekki nógu fínt. Svo er lítið á þessu að græða fyrir verktaka og sveitarfélög. Allt snýst, jú um peninga,“ sagði einn um málið. Annar hafði áhyggjur af að horft yrð á smáhýsabyggð eins og braggabyggðina í Reykjavík á eftirstríðsárunum. Skipuleggja þyrfti byggðina vel svo ekki rísi bara ghettó. Ein skrifaði við færsluna: „Sem sagt hverfi fyrir efnaminni? Við þurfum einhverstaðar að vera,“ og bætti svo við hjarta.
 
„Auðvitað á fyrir löngu að vera búið að koma upp svona byggð. Svona byggð myndi leysa meiri vanda en hún skapar og við eigum ekki alltaf að vera föst í einhverri forræðishyggju og vera að eyða tíma okkar í að hafa vit fyrir fólki. Svona byggð væri kjörin fyrir efnaminna fólk og fólk sem kýs að búa svona. En til að svona gæti orðið að raunveruleika þá þarf fólk að yfirstíga ákveðna fordóma og kreddur en til þess þarf þroska,“ sagði einn góður Sandgerðingur og annar bætti við: „Mér finnst þetta frábær hugmynd sem ætti að henda í framkvæmd sem allra fyrst. Ég ætla þá að vera sú fyrsta sem skrái mig á biðlistann eftir húsi“.
 
Sandgerðingar kaupa smáhýsi
 
Það liðu ekki margir dagar frá því þessari umræðu var varpað á samfélagsmiðla þegar fréttir bárust af því að Sandgerðisbær ætlaði að ráðast í kaup á fjórum smáhýsum. Smáhýsin eru innréttuð í staðlaðar gámaeiningar. Þau verða sett niður á steyptan sökkul við Þekkingarsetrið í Sandgerði til að leysa bráðan húsnæðisvanda í Sandgerðisbæ.
 
Samskonar steyptir sökklar eru í Rockville. Þar væri hægt að setja niður smáhýsabyggð eða svona gámaeiningar með stuttum fyrirvara til að leysa bráðan húsnæðisvanda á svæðinu. Það er hins vegar á valdi bæjaryfirvalda í Sandgerði að ákveða hver framtíð Rocville verður.
 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024