Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Föstudagur 3. nóvember 2000 kl. 11:29

Smábátamenn á Suðurnesjum: Vilja láta loka stærra svæði fyrir togveiðum

Sjávarútvegsráðherra voru á dögunum afhentar 130 undirskriftir smábátamanna og útgerðarmanna minni neta- og línubáta á Suðurnesjum þar sem þess var farið á leit við ráðuneytið að stækka það svæði sem lokað er fyrir togveiðum vestur af Sandgerði. Erindið var sent til umsagnar Útvegsbændafélags Suðurnesja sem lagðist gegn hugmyndinni. Niðurstaða ráðuneytisins var því sú að hafna beiðni smábátamanna. Frá þessu var sagt í Fiskifréttum. Verndum línuveiðisvæðin fyrir ágangi togara Töluverður hiti er í smábátasjómönnum á Suðurnesjum og útgerðarmönnum minni báta innan Útvegsbændafélagsins vegna málsins enda telja þeir forsendur hafa breyst verulega á undanförnum árum og því sé nauðsynlegt að takmarka aðgang togskipa að veiðisvæðinu vestan Sandgerðis. Að sögn Lárusar Ólafssonar á Baddý GK, sem hefur beitt sér í málinu að hálfu smábátafélagsins, hefur sú breyting orðið að í stað minni togskipa eru komnir öflugir togarar sem hannaðir eru með það fyrir augum að geta stundað veiðar upp að fjórum mílum frá landi. Sem dæmi um þessi skip nefnir hann togarana Þuríði Halldórsdóttur GK, Sturlu GK, Berglín GK og Sóleyju Sigurjóns GK. Að auki sé verið að smíða mörg togskip erlendis sem sökum lengdar og aflvísis mega fara inn fyrir hefðbundnar togaralínur. „Við viljum að í stað þess að dregin sé lína frá Garðskaga norður í Malarrif, þá sé línan færð út í Stafnes og dregin þaðan norður. Með þessu móti væri hægt að vernda ágæt línuveiðisvæði fyrir ágangi togskipanna. Reyndar tel ég sjálfur að tímabært sé að loka mun stærra svæði því það hafa orðið miklar breytingar á botnlaginu á þessum hraunsvæðum vegna togveiðanna“, segir Lárus. Viljum óbreytt fyrirkomulag Bergþór Baldvinsson, útgerðarmaður í Nesfiski hf. í Garði og fráfarandi formaður Útvegsbændafélags Suðurnesja segir að félagið hafi staðið frammi fyrir tvenns konar kröfum í þessu máli. Smábátamenn hafi krafist þess að togveiðisvæðið verði minnkað en togaramenn Útvegsbændafélagsins hafi hins vegar viljað stærra veiðisvæði. „Þetta er búið að vera óbreytt í 20 ár og við ákváðum að farsælast væri að halda sama striki. Það eru reyndar skiptar skoðanir í málinu innan félagsins og mörgum af útgerðarmönnum línu- og netabátanna er ósárt um það þótt togveiðisvæðið verði minnkað. Ég vek hins vegar athygli á því að það náðist ágætt samkomulag í fyrra á milli skipstjóra togskipanna hér á svæðinu og sjómanna á línu- og netabátunum um að hliðrað væri til fyrir þessum veiðarfærum. Þetta samkomulag hélt en ég veit ekki til þess að menn hafi samið um þetta sín á milli á þessu ári“, segir Bergþór. Smábátaeigendur taka reyndar undir það með Bergþóri að umrætt samkomulag við togaraskipstjóra á Suðurnesjum hafi reynst ágætlega en þeir benda á það að vegna fjölda aðkomubáta á togveiðunum þá hafi mikill misbrestur verið á því að samkomulagið virkaði jafn vel og stefnt var að.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024