Slysið breytti lífi hans
Strákar sem stunda hraðakstur eru að reyna að vera töffarar, segir Sigurður Matthíasson sem þekkir slíkt af eigin raun. Hlutskipti margra sem eru svo heppnir að lifa af bílslys er líklega ekki það sem ungt fólk í blóma lífsins myndi helst kjósa sér. Saga Sigurðar var sögð í kvöldfréttum RÚV í kvöld.
Sigurður, kallaður Siggi, er 24 ára, hress ungur maður sem ekki þykir leiðinlegt að gantast og sprella. Hann býr á heimili á Túngötu í Grindavík, en heimilið er einmitt að fara að halda upp á 10 ára afmæli sitt á morgun. Hann er nýbúinn að fá rafmagnsvespu og vinnur tvisvar í viku tvo tíma á dag.
2. júní 2005 breyttist allt en þá fór hann fór í spyrnu á öflugum bíl með ökumanni og tveimur stúlkum sem sátu aftur í. Hann segir að hámarkshraðinn hafi verið 50 km/klst. Ökumaðurinn hafi keyrt á 180 kílómetra hraða og tekið beygju og þá hafi slysið orðið. Ökumaðurinn og stúlkurnar sluppu, Siggi ekki.
Hann var meðvitundarlaus í tvo og hálfan mánuð og svo tók við eitt ár á Grensásdeildinni. Sigurður segir að strákar sem séu að spyrna séu að reyna að vera töffarar. Þeir séu á flottum bílum og spyrji „Hey, ertu að tala við mig?“ Þeir séu að reyna að vera töffarar.
Faðir Sigga, Matthías Grindvík Guðmundsson, var nýhættur áratugastarfi sem sjúkraflutningamaður þegar slysið varð en lenti sjálfur í því að klippa son sinn út úr flakinu. Lögreglan hélt móðurinni, Bertu Grétarsdóttur, frá. Hún segir að Siggi sé ekki sami drengurinn og hafi farið frá þeim áður en hann lenti í slysinu. Hann hafi fengið mjög góðan bata og farið mikið fram þó að það vanti mikið á þá gefi hann þeim mjög mikið. Þetta sé hins vegar sárt, mjög sárt.
Siggi er mikil félagsvera og þyrfti að fá að vera í meiri vinnu. Matthías segir að hann þurfi að fara í vinnu og gera eitthvað, hann hafi mjög gaman af því. Hann segir að vinir sonarins hafi verið yndislegir krakkar á sínum tíma og séu það væntanlega enn, en það hafi minkað mjög að þeir kíki á Sigga. Hann hringi í þá og reyni að fá þá með sér á pöbbinn um helgar og svona til að lyfta sér eitthvað en það gangi ósköp illa.
Aðspurður hvort hann eigi ráðleggingar til þeirra sem finnist gaman að spyrna og fara í kappakstur segir hann að ef fólk vilji lenda í slysi þá keyri það bíl þannig og lendi í slysi. En ef fólk vilji ekki lenda í slysi þá keyri það bara eins og venjulegur maður.
Tengill á frétt RÚV
Frétt og efsta myndin af vef RÚV. Myndir frá slysstað tók Hilmar Bragi Bárðarson.