SLYSAGILDRUR Á MÁNAGRUND
Barnaverndarnefnd Reykjanesbæjar hefur í tvígang sent byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar tilmæli um að loka verði opnum taðþróm við hesthús á Mánagrund vegna slysahættu. Auk augljósrar hættu vegna aukinnnar umferðar barna t.d. vegna knattspyrnuiðkunnar í Reiðhöllinni eru sumar þrærnar það djúpar að fullorðnum sem hrossum stafar hætta af. Að sögn Viðars Más Aðalsteinssonar, byggingarfulltrúa er málið í meðferð og viðkomandi aðilum hefur verið gefinn ákveðinn frestur til að bæta úr ástandinu. „Þetta er ekki nýtt vandamál og er unnið að úrbótum á þessum vanda í samvinnu við Hestamannafélagið Mána.“Viðar sagði úrræði yfirvalda vera að gera úrbætur á kostnað eigenda og sækja féð síðan með fjárnámi auk þess sem beita mætti sektarákvæðum en slíkt væri einungis gert er allt annað brygðist. Jón Olsen, formaður Hestamannafélagsins Mána, sagði tilkomu taðþrónna frekar nýlega og til mikilla bóta vegna aukins hreinlætis og minni lyktar. „80% af þessum þróm voru byggðar síðasta sumar eða í haust. Langflestir húseigendur hér eru búnir að ganga vel frá þessu og aðeins örfáir eftir og er ég þess fullviss að þessu verður komið í viðunandi horf og ákveðin afstaða opinberra aðila einungis til góðs.“